138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

Skógrækt ríkisins.

43. mál
[15:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að taka upp þessa umræðu sem ég held að sé afar mikilvæg vegna þess að við þessar kringumstæður er einmitt mjög brýnt að við sem hér störfum höfum heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Við erum kosin fyrir ýmiss konar pólitíska sýn og hagsmuni en þegar kemur að svo krefjandi verkefnum eins og nú eru fram undan að því er varðar hagræðingu í ríkisrekstrinum, sem er meiri en nokkurn tímann á lýðveldistímanum, verður hver og einn þingmaður að standa vörð um sjónarmið sinnar heimabyggðar og síns kjördæmis en jafnframt að gæta að heildarhagsmunum samfélagsins. Svo kann að vera að einhver störf flytjist til. Hins vegar er ég hjartanlega sammála þingmanninum um að þeir straumar eiga ekki að liggja í eina átt og frekar suður en austur og norður.

Við höfum rætt það í þeim hópi sem hefur setið við borð sóknaráætlunar 20/20 og ég heyrði að þingmaðurinn nefndi áðan í fyrirspurn sinni til fjármálaráðherra (Gripið fram í: Það var annar.) — nú, það var annar þingmaður. Þar hefur verið lögð sérstaklega mikil áhersla á að fulltrúar sveitarfélaganna eigi aðkomu að því borði einmitt til þess að þessi sjónarmið séu varðveitt, þeirra sé gætt og að ákvarðanir sem teknar eru verði til þess að tryggja þjónustustigið úti á landi, jafnvel með því að huga að sérstökum þjónustukjörnum fyrir hvern landsfjórðung. Ég vænti þess og vona að sú vinna hafi hér eftir sem hingað til með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og auðvitað þá staðreynd að höfuðborg er ekki til án öflugrar landsbyggðar og landsbyggð er ekki til án öflugrar höfuðborgar.