138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

eiginfjárframlag ríkisins í Landsbankanum.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar mikið um aukna skuldsetningu þjóðarinnar og það er alveg rétt, þjóðin er auðvitað mjög skuldsett. En ég veit ekki betur og við ræðum það á eftir að Framsóknarflokkurinn fór í ferð til að reyna að ná í meiri lán til að auka skuldsetningu þjóðarinnar. Ég er gersamlega ósammála hv. þingmanni um að þau lán sem við þurfum að fá, sem vissulega auka skuldsetningu þjóðarinnar, séu ekki til þess fallin að hjálpa okkur að styrkja gengið og við þurfum þessi lán til að efla gjaldeyrisforðann. Ég held að það sé alveg ljóst og flestir viðurkenna að við þurfum þessi lán. Hvort við þurfum meiri eða minni er auðvitað hægt að fara yfir við endurskoðun áætlunar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ég held að það sé ekki hægt að neita því að það er forsenda fyrir því að styrkja gjaldeyrisforðann, að við getum styrkt gengi krónunnar, lækkað stýrivexti og lækkað verðbólguna. Ég held að það sé alveg ljóst.

Varðandi þá dagsetningu sem hv. þingmaður nefndi, hvort krafa innstæðutryggingarsjóðsins á Landsbankann hafi verið fest við tiltekna dagsetningu, 22. apríl, veit ég það bara ekki og skal skoða það alveg sérstaklega.