138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

atvinnu- og orkumál.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum sé kunnugt um að það þarf að fara í miklar aðgerðir til að ná niður hallanum á ríkissjóði, bæði með útgjaldahliðinni og tekjuhliðinni, þá með skattlagningu. Það er gott að sjálfstæðismenn komi fram með tillögur þar að lútandi sem er ágætt að fara yfir líka.

Það sem sett var fram um að skattleggja ætti orkufyrirtækin um 1 kr. á kílóvattsstund er ekki rétt og það verður ekki gert. Haft hefur verið samband við forstjóra orkufyrirtækjanna og aðilar vinnumarkaðarins hafa líka rætt þetta með ráðherrum. Það verður ekki farið í svona mikla skattlagningu að því er þetta varðar, það er alveg ljóst. (Gripið fram í.) Við verðum auðvitað að finna aðrar leiðir til þess í sameiningu og við skulum bara fara yfir það hvernig það er hægt. En það er alveg ljóst að ef við förum mikið neðar, kannski í 20 eða 25 aura á kílóvattsstund, þarf að finna aðrar leiðir til að ná því inn sem upp á vantar. (Gripið fram í.) En við verðum auðvitað að skoða þetta saman og ég er alveg tilbúin að setjast yfir það með sjálfstæðismönnum og skoða þær leiðir sem þeir vilja fara að því er varðar skattlagningu, t.d. hvað lífeyrissjóðina varðar þótt vissulega séu líka á því margir gallar sem þarf að skoða. Aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sig upp á móti þessu að því er ég best veit, en ég tel það þó þess virði að skoða þá leið, hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi í því efni.

Varðandi Helguvík og úrskurð umhverfisráðherra tel ég að umhverfisráðherra sé bara að rækja þær stjórnsýslulegu skyldur sem hún hefur, að farið sé að lögum og reglum að því er varðar þann þátt sem að henni snýr. Ég hef fulla trú á því að úrskurður umhverfisráðherra muni ekki tefja fyrir framkvæmdum í Helguvík. Ég tel að það geti gengið tiltölulega fljótt yfir. Það eru miklu frekar fjárfestingar sem þarf að fara í, að losa um þær og liðka þar fyrir (Forseti hringir.) til að hægt sé að fara í framkvæmdirnar í Helguvík.