138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

atvinnu- og orkumál.

[10:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra segir að það þurfi að halda áfram með þessar framkvæmdir, ég skildi hana þannig. En á hinn bóginn er það alveg ljóst að það gengur ekki að ráðherra í ríkisstjórn Íslands tali niður orkufyrirtækin eins og einn ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði í síðustu viku.

Síðan er það merkilegt sem kemur fram í svari forsætisráðherra, það er alveg ljóst að tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi orkuskatt, sem eru náttúrlega ekkert annað en tóm della eins og aðstæður eru í dag, eru algerlega vanhugsaðar. Það er bara: Hver býður betur? Iðnaðarráðherra er búin að bjóða 10 aura, fjármálaráðherra sagði ein króna í fjárlagafrumvarpi sínu, svo bakkar hann aðeins og segir 30 aura, og nú heyrum við forsætisráðherra tala um 20–25 aura. Við sjálfstæðismenn munum leggja fram tillögu síðar í dag sem ég vænti að forsætisráðherra taki þá þátt í og taki til máls þar því að það er alveg ljóst að það gengur ekki á þessum tímum að fara skattlagningarleið ríkisstjórnarinnar. Við komum fram með raunhæfar tillögur í þá veru að reyna að forða álögum á fyrirtæki og einstaklinga til þess að við getum haldið fram á veginn (Forseti hringir.) í þessu samfélagi. En það er merkilegt að sjá að tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi orku- og auðlindaskatt eru algerlega vanhugsaðar.