138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

uppboðsmeðferð.

[10:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég rakst á frétt í lok september þar sem minnt var á að frestur um uppboðsmeðferð rynni út fljótlega, 1. nóvember nk. Fresturinn gilti um heimili gerðarþola, skrásett lögheimili. Í þessari frétt er talað við aðstoðarmann dómsmálaráðherra og segir viðkomandi að málið sé í skoðun. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort einhver niðurstaða sé komin úr þessari skoðun. Nú liggur fyrir að mjög mörg mál eru að segja má alveg frágengin. Maður hefur heyrt sögur frá sýslumönnum af því að gengið hafi verið eins langt og hægt var. Svo er pappírinn settur í skúffu og þeir bíða núna fram til 1. nóvember þannig að búast má við holskeflu uppboða ef fresturinn verður ekki framlengdur.

Creditinfo hefur líka bent á að mikil aukning hefur orðið hjá fyrirtækjum og einstaklingum sem lenda í greiðsluþroti. Hjá fyrirtækjum er t.d. talað um að þau hafi aukist um tæplega 50% milli áranna 2008 og 2009 og tæplega 30% aukning er í fjölda gjaldþrota sem þegar hefur verið farið fram á. Síðan er talað um að allt að 5.100 fyrirtæki séu í áhættuflokkum 9 og 10 en það eru þau fyrirtæki sem eru í verulegri hættu á að lenda í greiðsluþroti á næstu mánuðum. Fram undan er þannig væntanlega mikið álag á dómstólana. Ég hefði áhuga á að heyra hvort talað sé um að framlengja þennan frest. Hefur verið skoðað að breyta lögum um fyrningu kröfuréttinda þannig að sömu reglur mundu t.d. gilda og hjá Íbúðalánasjóði — þeir gera ekki kröfur umfram veðið og halda ekki kröfum lifandi lengur en fimm ár — eða stendur til að breyta gjaldþrotalöggjöfinni sjálfri?