138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

uppboðsmeðferð.

[11:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að unnið sé í þessu máli og að vonandi komi fram frumvarp á næstunni. Á listanum yfir þau þingmál sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fram sýndist mér líka talað um hugsanlegar breytingar varðandi nauðasamninga. Það væri áhugavert að heyra frekar um það, en ég ítreka spurningu mína um hvort ráðuneytið sé eitthvað að skoða varðandi fyrningu kröfuréttinda.

Margir virðast halda að þegar krafa byrjar að fyrnast fyrnist hún þar með, en samkvæmt lögunum er hægt að viðhalda kröfu lengi, mér skilst meira að segja að hægt sé að halda lifandi kröfu í dánarbú. Það er nokkuð sem ég tel mjög mikilvægt að skoða. Talsmaður neytenda sem var að færast undir ráðuneyti hæstv. ráðherra hefur einmitt bent á gallana við þá löggjöf. (Forseti hringir.) Ég ítreka áhyggjur mínar af þessum fjölda. Ég ítreka líka áhyggjur mínar af því að á sama tíma og dómstólar takast á við svona mörg mál sé hugsanlega verið að fara samhliða (Forseti hringir.) í mjög miklar skipulagsbreytingar.