138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

uppboðsmeðferð.

[11:03]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Sú endurskoðun á nauðasamningaferlinu sem nú á sér stað, varðandi nauðasamningaumleitanir lögaðila, fyrirtækja, er í raun þannig að þetta er greiðsluaðlögun til að einfalda nauðasamningaferlið þannig að endurskoðunin miðar að því að gera fyrirtækjum einfaldara og auðveldara að leita nauðasamninga.

Hvað varðar fyrningu kröfuréttinda tek ég þá ábendingu til mín og þetta verður að sjálfsögðu skoðað í ráðuneytinu. Ég bendi á að t.d. hvað varðar einstaklinga sem lenda í gjaldþroti kemur einmitt greiðsluaðlögun til greina fyrir þá einstaklinga. Í rauninni gætu þá einstaklingar sem lent hafa í gjaldþroti og eru með, má segja, eilífan skuldahala á eftir sér leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt þessum lögum frá í vor. Það gæti kannski komið eitthvað til móts við það sem hv. þingmaður nefnir, en eins og ég segi munum við skoða þetta betur í dómsmálaráðuneytinu.