138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að dást í raun og veru að þessari þrautseigju og óbilandi trú framsóknarmanna á því að þeir geti orðið þjóðinni úti um peningalán eða vilyrði fyrir slíku láni hjá vinum okkar og frændum í Noregi, (Gripið fram í.) þar fyrir utan utan við öll önnur skilyrði sem Norðmenn hafa fram til þessa sett fyrir slíkum lánveitingum. Ekki síst ber að fagna því að þeir sem hafa verið í fararbroddi í þessu máli, þ.e. hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, útrásararmur Framsóknarflokksins, ætla ekki að láta nokkurn mann segja sér annað. Þeir ætla ekki að láta nokkurn mann segja sér annað en að Norðmenn muni lána okkur slíkt fé óháð skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef eftir því verður sóst. Það er aðdáunarvert sömuleiðis að þessir sömu framsóknarmenn, hv. þingmenn sem ég nefndi áðan, láta sig það engu skipta þó að fram á sjónarsviðið komi nokkuð sem heitir víst að vera forsætisráðherra í hinu lýðræðislega þingi Norðmanna eða fjármálaráðherra og segja: Þetta kemur ekki til greina, þetta verður ekki gert. Norðmenn (Gripið fram í.) hafa sett sín skilyrði og þetta hafa þeir sagt þó svo að (HöskÞ: Rangt.) hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gjammi fram í úti í sal um að það sé rangt. Þetta sagði Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, í ræðu á Stórþinginu fyrir tveim dögum. (HöskÞ: Rangt.) Og það stendur.

Ég hvet framsóknarmenn áfram í þessari baráttu því að Noregur er ekki óvinnandi vígi. [Hlátur í þingsal.] Og ég treysti hv. þingmönnum framsóknarmanna, sem ég nefndi áðan, betur en öllum öðrum framsóknarmönnum til að fella Noreg í þessum málum. Þeir mega vita um minn stuðning kláran og okkar vinstri grænna þegar Noregur fellur og framsóknarmenn koma hingað heim aftur með lán algjörlega óskuldbundið. (HöskÞ: Við þökkum fyrir það.)