138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að lýsa því yfir að ég get ekki annað en dáðst að þeim hug sem fylgir þeirri vinnu sem framsóknarmenn hafa lagt í undanfarið varðandi lánalínur til Noregs. Ég veit lítið meira um þetta mál en hefur komið fram í fréttum. Að vísu hef ég líka talað beint við framsóknarmenn, en ég hef enga ástæðu til að ætla að neitt annað en að góður vilji búi að baki og að þeir skýri satt og rétt frá.

Viðbrögðin við umleitunum framsóknarmanna hafa hins vegar komið mér nokkuð á óvart. Ég hef reynt að finna skýringar á þessum hörðu viðbrögðum, og þá sérstaklega samfylkingarmanna. Það er bara ein skýring á því, það virðist sem samfylkingarmenn hafi náð að flytja inn frá Noregi eitt lítið lögmál sem í Noregi er kallað „janteloven“. Hvað þykist þið vera? Við erum með þetta allt undir kontról. Hvað þykist þið hafa til málanna að leggja? Það erum við sem erum með þetta allt saman á hreinu.

Þannig meðferð fá allar tillögur sem eru bornar fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn. (VigH: Rétt.) Ef ekki í þinginu, þá á bloggsíðum. (Gripið fram í: Hvaða minnimáttarkennd er þetta?) (VigH: Rétt.) Það er sennilega það eina sem ekki vefst fyrir mér, minnimáttarkennd. [Hlátur í þingsal.] Janteloven er það sem stjórnar þessari ríkisstjórn.