138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:39]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Norðurlöndin binda lánveitingar til okkar framkvæmd efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lausn á Icesave-deilunni. Þessi efnahagsáætlun dýpkar kreppuna og gerir skuldsetningu ríkissjóðs mun meiri en ella. Fyrir þessu hafa framsóknarmenn gert sér grein og fóru m.a. til Noregs til að opna augu Norðmanna fyrir þessari staðreynd. Eitt af hlutverkum sjóðsins hér á landi er að birta reglulega mat á skuldaþoli ríkissjóðs til að meta hvort hann stefni í greiðsluþrot. Það merkilega gerðist í sumar að sjóðurinn neitaði að birta þessa útreikninga. Af hverju skyldi það vera? Jú, er það ekki vegna þess að ríkissjóður þolir ekki meiri skuldsetningu? Með öðrum orðum, Icesave-skuldsetningin er of mikil fyrir ríkissjóð. Þetta vita matsfyrirtækin.

Í ágúst sagði Moody's í skýrslu sinni að fyrirvarar Alþingis við Icesave-ríkisábyrgðina ykju líkurnar á því að ríkissjóður gæti staðið við skuldbindingar sínar. Þetta mat Moody's er áhugavert í ljósi þess að margir hafa kvartað yfir því að dýrmætum tíma Alþingis hafi verið eytt í þessa fyrirvara, reyndar tíma sem átti að fara í sumarfrí þingsins.

AGS telur nauðsynlegt að afnema gjaldeyrishöftin og vill að við tökum lán og eignumst hér þúsund milljarða í gjaldeyrisvarasjóði. Árið 2005 var þessi gjaldeyrisvarasjóður bara 67 milljarðar.

AGS bannar Seðlabankanum að nota aðrar leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin, sem eru sjálfbærar eða fjármagna sig sjálfar, eins og skattlagning og uppboðsmarkaður.

Virðulegi forseti. Við verðum að losna undan Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, (Forseti hringir.) með eða án Norðurlandanna. Þetta snýst um sjálfstæði komandi kynslóða og (Forseti hringir.) náttúruauðlindir þjóðarinnar. (VigH: Heyr, heyr.)