138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Það er svolítið dapurlegt að heyra viðbrögð samfylkingarmanna við för framsóknarmanna til Noregs. Hún er í alla staði virðingarverð og það er til mikils að vinna að reyna að sækja aðstoð annars staðar að. Það er löngu kominn tími til að Samfylkingin og hæstv. forsætisráðherra viðurkenni að efnahagsstefna þeirra er hrunin. Hún byggir á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoði Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veldur Íslandi óbærilegu tjóni í dag með því að neita að taka afstöðu til efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar. Innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er málunum haldið í frosti vegna þess að Bretar og Hollendingar krefjast þess að Íslendingar knékrjúpi fyrir þeim og greiði þeim hundruð milljarða sem þeir eiga hugsanlega samkvæmt lögum ekki að fá greidda. Þess utan er þetta Icesave-mál tengt inngöngu í Evrópusambandið með beinum hætti. Allir vita það.

Stefna Samfylkingarinnar er orðin að þvílíkri flækju að hún er orðin nánast óleysanleg. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra og þá vinstri græna sem styðja þessa stefnu — eins og við heyrðum rétt áðan eru þó einhverjir innan stjórnarflokks Vinstri grænna sem geta séð málin með raunsæjum augum og vita hvernig gjaldeyrissjóðurinn starfar, en ég hvet hina til þess að taka til alvarlegrar athugunar þá stefnu að styðjast við aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er kominn tími til að vísa þeim heim. Þeir eru hér að gæta hagsmuna Breta og Hollendinga. Þeir eru ekki að aðstoða Íslendinga. Þeir valda okkur tjóni með aðgerðum sínum og það er löngu tímabært að þeir fari til síns heima.