138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir hans framlagningu á þessari þingsályktunartillögu og Sjálfstæðisflokknum öllum, því það hefur orðið ljóst á þessi þingi eftir alþingiskosningar að það er stjórnarandstaðan sem kemur með úrbætur og raunhæfar tillögur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hér vísa ég jafnframt til þess að framsóknarmenn lögðu fram mjög metnaðarfullar tillögur í febrúar á þessu ári sem eru nú í endurskoðun og verða lagðar fyrir þingið mjög fljótlega. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kynnti til sögunnar plan B sem við ætlum að leggja fram í dag sem leysir af hólmi það ömurlega Alþjóðagjaldeyrissjóðsprógramm sem við erum föst í.

Mig langar til þess að deila nokkrum hugmyndum sem hafa lítillega verið ræddar í þingflokki framsóknarmanna úr því að hv. þm. Bjarni Benediktsson talar um að fresta skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna. Þetta er afar áhugaverð hugmynd og hef ég verið mjög jákvæð í garð þessarar tillögu sjálfstæðismanna allt frá því hún kom fram í vor.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort sjálfstæðismenn hafi skoðað að fresta skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna að öllu leyti? Við stöndum hér á rústum samfélags og nú þurfum við að horfa á málin algjörlega upp á nýtt. Er ekki komið að því að við stígum það skref að láta lífeyrissjóðina greiða inn í hagkerfið 500–600 milljarða, það sem er í raun og veru vörsluskattar lífeyrissjóðanna í skattgreiðslu ríkisins? Erum við ekki komin á þann stað í okkar efnahagslífi að við þurfum að kalla inn þetta fjármagn? Við erum að tala um miklar upphæðir. Telur hv. þingmaður að atvinnulífið mundi þola þessa innlausn?