138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:19]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum sagt varðandi niðurskurðinn að við viljum horfa til þess að í velferðarráðuneytunum verði ekki gengið eins langt og annars staðar. Þar verði miðað við u.þ.b. 5% niðurskurð en annars staðar 10%. Eins og ég vakti athygli á í ræðu minni áðan þarf það að útfærast á hverjum stað eftir því hvað skynsamlegt er þannig að við náum hámarkshagræðingu áður en þjónustan verður skert. Þetta viljum við leggja áherslu á sem meginatriði.

Varðandi útgjaldaaukann þá er það hárrétt sem hér hefur verið sagt að útgjöld ríkisins hafa aukist. Það er líka rétt að það gerðist á meðan sjálfstæðismenn voru í ríkisstjórn. Þá er eðlilegt að menn spyrji: Voru það stórkostleg mistök hjá Sjálfstæðisflokknum að auka ríkisútgjöldin í sinni stjórnartíð? Stærsti hlutinn af þessum útgjaldavexti fór til velferðarmála, í að greiða hærri laun og bæta við velferðina í landinu, styrkja hana og treysta. Voru það mistök? Ég held ekki. Ég held að mistökin hafi legið í því að tekjustofnarnir sem við ætluðum að byggja þessa auknu velferð á reyndust ekki eins traustir og við gengum út frá. Þar lágu okkar mistök. Tekjustofnar ríkisins voru ekki nógu traustir til langs tíma litið til þess að standa undir þessari stórauknu velferð í landinu, þessari miklu kaupmáttaraukningu sem við stóðum að. Nú þurfum við að horfast í augu við að tekjustofnarnir hafa dregist saman og þess vegna verðum við að draga útgjöldin saman að nýju.

Eins og ég vék að áðan þurfum við ekki að ganga lengra í þeim efnum en að líta aftur til áranna 2003, 2004 og 2005, ef horft er til þess hver útgjöldin eru á mann í þessu landi. Það er ekki stórkostlegur samdráttur í neinu tilliti. Á þeim árum voru hlutirnir í aðalatriðum í góðu lagi en við höfum ekki efni á að halda útgjöldunum á þessu stigi lengur.