138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn kynnum í dag tillögur okkar um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna ástands í efnahagsmálum. Það má segja að þetta sé ákveðið framhald af þeim tillögum sem við lögðum fram fyrr á þessu ári, í upphafi sumars, sem við gáfum síðan út í bæklingi sem hét „Hvað við viljum gera“. Við fengum tækifæri í þinginu til þess að ræða þær tillögur sl. sumar og þeim var í heildina vel tekið. Utanríkisráðherra kom upp í púlt og fleiri stjórnarliðar og tóku vel í þær hugmyndir sem við lögðum fram. Margar þeirra eru þó hér inni áfram af því að við höfum ekki fengið tækifæri til þess að ræða þær frekar á grundvelli stjórnsýslunnar.

Þeim var sem sagt vel tekið í vor, þar á meðal tillögum okkar er tengjast skuldavanda heimilanna. Ljóst er, sem segir m.a. í plaggi okkar, að það eru ákveðin atriði sem við verðum öll að hafa í huga varðandi skuldavanda heimilanna. Við tölum m.a. um:

Að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði. Ég held að þetta sé algjört lykilatriði fyrir okkur Íslendinga. Þetta einkennir okkur og okkar þjóðarsál. Í öðru lagi að aðgerðir tryggi hag lántakenda ekki síður en lánveitenda. Við viljum að aðgerðir séu almennar. Að viðhalda greiðsluvilja m.a. með hvötum til uppgreiðslu skulda. Við viljum tryggja að aðgerðir séu ekki vinnuletjandi. Það er mikilvægt atriði. Það er mín skoðun að þær leiðir sem ríkisstjórnin boðar í formi stórkostlegra skattahækkana séu vinnuletjandi. Við segjum m.a. að tryggja verði að aðgerðir leiði ekki til stórkostlegra skattahækkana. Við viljum að aðgerðir verði auðskiljanlegar og gagnsæjar, ekki þetta torf sem kynnt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við viljum tryggja að aðgerðir leiði ekki til landflótta og við viljum koma í veg fyrir frekara hrun á fasteignamarkaði.

Margar tillögur hafa á undanförnum vikum verið kynntar til sögunnar af hálfu ýmissa aðila, stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka heimilanna, ýmissa hagfræðinga og annarra úti í bæ. Þær eru allra góðra gjalda verðar. Það sem hins vegar vantar er einmitt frumkvæði af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka skrefið í áttina að samstöðu og fara yfir tillögurnar í heild sinni. Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum að ná, eins og segir í tillögum okkar, að mynda þverpólitíska sátt um þær aðgerðir sem ég taldi upp, m.a. hvort við eigum að fara yfir kosti þess og galla að fara allt frá flötum niðurskurði til sértækra aðgerða. Viljum við líka fara í almennar aðgerðir fyrir heimilin? Það þarf pólitíska lausn á þessu, pólitíska sáttaumgjörð til þess að fara yfir þetta. Við boðuðum í upphafi sumars að við ættum að skipa þverpólitískan hóp til þess að fara yfir þær tillögur sem ýmsir stjórnmálaflokkar hafa sett fram, þar á meðal Framsóknarflokkurinn, varðandi 20% niðurfærslu skulda heimilanna.

Við höfum ekki efni á því í dag að útiloka neina möguleika sem koma heimilunum fyrr út úr þeim gríðarlega vanda sem þau standa frammi fyrir. Það má því líka segja að þetta plagg okkar sjálfstæðismanna sé enn og aftur ákall til ríkisstjórnarinnar um samstöðu í þeim gríðarlega mikla vanda sem við stöndum öll frammi fyrir. Hann er, eins og formaður minn sagði áðan, ekki auðvelt að leysa. Stjórnmálamenn mega ekki veigra sér við að fara í gegnum þau svipugöng. Þá þarf líka ríkisstjórnin að rétta fram sáttahönd gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni og út til samfélagsins alls.

Þess vegna vil ég hvetja ríkisstjórnarflokkana til þess að fara vel yfir tillögur okkar, taka vel í þær og fara aðrar leiðir en ríkisstjórnin hefur farið fram til þessa. Reyna að ná breiðari samstöðu í þessu mikilvæga máli sem snertir heimilin, fyrirtækin og uppbygginguna í samfélaginu. Ég hef bitra reynslu af því frá þessum örfáu mánuðum sem við höfum verið að kljást, stjórn og stjórnarandstaða, að þessi vilji til samstöðu hefur ekki verið, ekki varðandi stjórnarskrárbreytingarnar eða það að reyna að ná almennilegum sáttafleti varðandi ESB, hvað þá Icesave.

Við sjálfstæðismenn ásamt öðru góðu fólki hér í þingsal lögðum af stað í ákveðna vegferð með ríkisstjórninni í þá veru að reyna að ná bærilegri niðurstöðu eftir hörmulega niðurstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi Icesave. Við lögðum okkur fram um að verja íslenska hagsmuni. Ég tel að það hafi náðst bærileg sátt um það. Þess vegna verða öll frekari skref í því erfiða máli að vera tekin í samráði og samvinnu og upplýstri afstöðu gagnvart stjórnarandstöðunni, ekki þannig að við þurfum að lesa um þetta í fjölmiðlum.

Varðandi þær tillögur sem við höfum boðað, þar kennir ýmissa grasa. Ég vil sérstaklega undirstrika skuldavanda heimilanna og einnig taka fram að við bendum á aðrar leiðir en gamaldags hefðbundnar leiðir vinstri stjórna, það er að fara í skattahækkanir. Það er eins og vinstri stjórnin vilji innprenta það í alþjóð að það sé bara um tvennt að ræða, þ.e. annars vegar niðurskurð og hins vegar skattahækkanir, en aðrar leiðir séu ekki færar. Ég er ósammála því. Ég tel að við séum nauðbeygð að fara í niðurskurð og við þurfum að gera það. Það verður sársaukafullt, við vitum það, en við þurfum að gera það og við eigum ekki að veigra okkur við að fara í þau verk. Við leggjum til í okkar tillögum 5% á velferðarráðuneytin og 10% á önnur ráðuneyti.

Ég hef hins vegar velt því fyrir mér í nokkurn tíma eftir að hafa einnig verið í ríkisstjórn að það verklag allt sem tengist fjárlagagerð viðhelst áfram. Að mínu mati er staðan þar þannig að það þarf að fara í heildarendurskoðun á vinnulagi varðandi fjárlagafrumvarpið í heild sinni. Það getur vel verið að í einu ráðuneytinu þurfi að fara í 5% niðurskurð en í öðru ráðuneyti sé hægt að fara í 30% niðurskurð. Við erum allt of mikið í hólfaskiptingu þegar við nálgumst fjárlagafrumvarpið. Við verðum að skoða málin í heild og ég held að við eigum að vissu leyti að segja skilið við vinnulag fyrri tíma þegar kemur að fjárlagagerð, fara heildstætt yfir viðfangsefnin og málefnin og þora að forgangsraða óháð því hvaða ráðuneyti eru starfandi hér á Íslandi. Við eigum að nálgast þetta út frá hverju viðfangsefni út af fyrir sig.

Ég held að það sé nauðsynlegt og það er gott að finna að það er mikil samstaða innan þingsins um að gæta sérstaklega að velferðarráðuneytunum. Gríðarlega mikil uppbygging hefur orðið á sviði velferðarmála, menntamála og menningarmála á undanförnum 10 árum. Raunaukning á síðustu 10 árum til velferðarmála hefur verið 79% á þessum sviðum. Ég held að enginn mæli í rauninni gegn því að við fórum þá leið. Við forgangsröðuðum í þágu velferðarmála á síðustu 10 árum. Engu að síður þarf að sýna aðhald og það má alveg taka undir að oft og tíðum var ekki sýnt nægilega mikið aðhald af hálfu þeirra ríkisstjórna sem voru við stjórn á undanförnum árum og áratugum.

Ég vil draga það fram að skattahækkunarleið ríkisstjórnarinnar er álögur á fólkið í landinu, fjölskyldurnar í landinu og fyrst og síðast líka á atvinnufyrirtækin í landinu. Við þurfum að koma hjólum atvinnulífsins, eins og oft er sagt, af stað á ný. Það verður ekki gert með skattahækkunum. Það er gamaldags leið og úrelt. Þess vegna er nauðsynlegt að við leggjumst yfir þær tillögur sem við sjálfstæðismenn setjum hér fram til þess að koma í veg fyrir að við þurfum að fara skattahækkunarleiðina. Til þess að við komum í veg fyrir að ein mánaðarlaun meðalfjölskyldu fari til viðbótar inn í ríkissjóð og í sjóði hins opinbera. Við verðum að gera allt til þess að koma í veg fyrir að farið verði í skattahækkanir. Þess vegna setjum við fram okkar tillögur. Við segjum ekki bara að við viljum engar skattahækkanir heldur komum við einnig með tillögur til þess að fara aðrar leiðir við að ýta samfélaginu af stað aftur.

Ég fagna ákveðnum atriðum og sérstaklega nýlegum fréttum varðandi Íslandsbanka, að erlendu kröfuhafarnir ætli að taka bankann yfir að mestu leyti. Eftir standa 5% af hálfu ríkisins. Það fær mig til þess að hugleiða hvaða framtíð við sjáum varðandi frekari hlutabréfavæðingu ríkisfyrirtækja. Það er mín skoðun og skoðun okkar sjálfstæðismanna að við eigum að koma á einhverju árabili ríkisfyrirtækjunum eins og bönkunum aftur út á markað. Það er þó ekki sama hvernig það er gert og þá eigum við að líta til reynslu liðinna ára. Þess vegna segi ég, mín skoðun er sú að til þess að eyða tortryggni í samfélaginu þegar kemur að því að setja mikilvæg ríkisfyrirtæki eins og bankana aftur út á markað (Forseti hringir.) þá eigum við að huga að þeirri leið að dreifa á hvern einasta mann, (Forseti hringir.) hvert einasta mannsbarn, (Forseti hringir.) hlutabréfi í ríkisfyrirtækjunum. Fólkið viti þá og fái á tilfinninguna (Forseti hringir.) að það sé verið að fara réttláta leið, að allir Íslendingar eigi (Forseti hringir.) hlutabréf í þessum fyrirtækjum.