138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Það taka ekki margir stjórnarliðar þátt í þessari umræðu þannig að ég ætla ekki að lasta þann sem gerir það. Hins vegar fannst mér athyglisvert það sem kom fram þegar formaður fjárlaganefndar sagði hreint og klárt að ekkert væri tilbúið varðandi tekjuhliðina í fjárlagafrumvarpinu. Í rauninni var hann að setja ábyrgðina yfir á okkur stjórnarandstæðinga að útfæra það. Ef menn telja að það séu eðlileg vinnubrögð þá bendi ég á hvaða land sem er sem við berum okkur saman við. Því fer víðs fjarri. Það er algjörlega ótrúlegt að ríkisstjórn sem hefur verið hér frá 1. febrúar og haft allan þennan tíma til að vinna þetta komi og gefist upp, setji fram plagg sem allir vita að er ekki framkvæmanlegt og segi: Þið verðið að redda þessu. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera.

Ég vil, af því ég veit að hv. þingmaður er hreinskiptinn, spyrja hann í fyllstu einlægni. Nú skrifaði ríkisstjórnin upp á stöðugleikasáttmála um mitt ár og það vantaði ekkert upp á fagnaðarlætin. Ekki neitt, virðulegi forseti. Það sem vantar hins vegar upp á eru efndirnar. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin er búin að brjóta það sem snýr að framkvæmdahlið stöðugleikasáttmálans og það þýðir að færri verða til að greiða skatta. Niðurstaðan er sú, miðað við það plagg sem við erum með núna, að menn ætla að hækka skatta verulega.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sáttur við þetta? Er hann sáttur við að ríkisstjórnin hafi brotið framkvæmdahlið stöðugleikasáttmálans? Ég bið hv. þingmann að vera hreinskilinn og ekki reyna að halda fram að svo sé ekki.