138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Orð mín má ekki skilja þannig að ég hafi sagt að fjárlagafrumvarpið hafi ekki verið tilbúið. Ég var bara að ræða það sem kom fram hér að menn gera athugasemdir við að nákvæm útfærsla á þeirri tekjuskiptingu sem þar er lögð fram eigi eftir að vinnast til enda, bæði vegna þess að það þarf að semja lög og koma með lagatillögur inn í þingið og síðan á efnahags- og skattanefnd eftir að fjalla um það. Mér finnst það ekki vera neinn veikleiki í sjálfu sér. Auðvitað get ég tekið undir að það skiptir máli að menn fái svör. Við erum að vinna fjárlög seint á árinu, það er talað um að taka skatta inn á nýju ári, atvinnulífið þarf svör og við þurfum það sem einstaklingar líka. Það breytir þó ekki því að það hefði verið að mörgu leyti jafnerfitt ef hér hefðu verið nákvæmar útfærslur sem ættu eftir að fara til efnahags- og skattanefndar, fjárlaganefndar og til afgreiðslu í þinginu. Það hefði ekki eytt óvissunni frekar.

Þegar menn töluðu um þessa leið sögðu menn: Við ætlum engu að breyta, ríkisstjórnin á að segja okkur hvernig þetta á að vera. Það getur vel verið að taktgöngulið Sjálfstæðisflokksins sé vant þessu en við ætlum ekki að viðhafa þessi vinnubrögð til lengri tíma. Ég ætla ekki að fjargviðrast um það. (Gripið fram í.) Við erum komin með ágætis tillögur um það sem einmitt er unnið samkvæmt stöðugleikasáttmálanum að 45% séu tekin á tekjuhlið og 55% á niðurskurðarhlið eða aðlögunarhlið og eftir því er unnið. Vikið er um 2% frá í þessum fyrstu tillögum sem á eftir að útfæra nánar. Það sem er að hjá okkur er að endurreisnin á íslensku samfélagi, fyrst og fremst endurreisn bankanna og framkvæmdir, hefur gengið of hægt. Auðvitað er ég ekki sáttur við það en það verður þó að viðurkennast að margar af þeim hugmyndum sem komu þar fram eru ekki tilbúnar til framkvæmda, því miður. Það tekur dálítinn tíma að koma þeim í gang. Veikleikinn í þessu samstarfi sem verið er að undirbúa með lífeyrissjóðunum er að það er ekki hægt að ganga í þær framkvæmdir strax.

Ég tala ekki fyrir því að setja fæturna fyrir atvinnulífið í því að byggja upp og ég treysti á að við reynum að ryðja eins hratt og hægt er (Forseti hringir.) úr vegi öllum þeim hindrunum sem þar eru í veginum án þess að breyta regluverki eða slaka á kröfum.