138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[13:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum gengur fram af mér það yfirlæti sem kemur fram í svona athugasemdum sem hér koma fram. Ég kom inn í fjárlaganefnd árið 2007 hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og var kallaður í Hafnarhúsið í Hafnarfirði með óklárað fjárlagafrumvarp frá Árna Mathiesen sem við tókum auðvitað, breyttum og löguðum. Það var fyrst kynnt fyrir mér þar. Hver er aðkoman fyrir mig, stjórnarþingmenn og jafnvel stjórnarandstöðuna að þessu fjárlagafrumvarpi núna? (ÞKG: Á ekki að breyta vinnubrögðunum?) Nákvæmlega. Við tökum verulega stórt skref núna. Því er verið að fagna og við erum sammála, ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, að það þarf að breytast.

Það var nefnilega unnin skýrsla og forsendur fyrir fjárlagafrumvarpið sem er verið að vinna eftir og stöðugleikasáttmáli var unninn. Það sem er að gerast núna er að þingmenn stjórnarandstöðunnar geta réttilega komið og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki farið eftir þeim atriðum sem sett voru fram. Þetta var ekki hægt áður, vegna þess að engin stefna lá fyrir. (Gripið fram í.) Ég er bara að vitna í stjórnarsáttmálann. Ég sat ekki í ríkisstjórninni en var í fjárlaganefnd á þeim tíma og veit hvernig vinnubrögðin voru. (Gripið fram í.) Það er búið að taka stór og mörg skref í rétta átt. (ÞKG: Ríkisstjórnin er að brjóta stöðugleikasáttmálann.) Það er ykkar útfærsla á því, hv. þingmenn, en við getum rætt það annars staðar. Ég ætla ekki að gera lítið úr því (Gripið fram í.) að við þurfum að fara hraðar varðandi stöðugleikasáttmálann. Um það (Gripið fram í.) verður samið og þegar er byrjað að semja inni í Karphúsi milli aðila vinnumarkaðarins og þeirra sem að þessu koma með ríkisstjórninni og væntanlega líka aðkomu stjórnarandstöðunnar. Menn reyna þar að fara yfir með hvaða hætti við vinnum það mál áfram. (Gripið fram í.) Er það ekki bara í fínum farvegi?

Það er hægt að rífast — (Gripið fram í: Er það samt ekki eitthvað sem var búið að semja um?) Það er búið að semja um ákveðið ferli en því miður hefur það gengið hægt. Það er hárrétt og þannig hefur það verið. Við ætlum ekki að gangast undan því. Við ætlum bara að viðurkenna það. Við vitum af hverju hlutirnir hafa tafist sumir hverjir. Það eru ákveðnar skýringar á því. Við skulum bara bretta upp ermar og reyna að koma okkur áfram. Stöðugleikasáttmálinn er enn þá í gildi og hefur ekki verið afsagður. Það er okkar að fylgja honum eftir. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að verja það, ég ætla bara að vinna mína vinnu og gera það án þess að hræra sífellt í pottinum (Forseti hringir.) eða sullast aftur á bak eins og sumir aðrir virðast vilja.