138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni og minnist þess þegar hann krýndi sjálfan sig hægri grænan í ágætum greinaflokki í Morgunblaðinu þegar þannig stóð á spori fyrir einhverjum missirum (IllG: Við erum öll hægri græn.) og minni hann af þessu tilefni á þá nafnbót sem hann sæmdi sjálfan sig.

Frá því á umhverfisþingi um síðustu helgi þar sem ég fjallaði í opnunarræðu m.a. um samningsmarkmið Íslands í Kaupmannahöfn (Gripið fram í.) hafa ýmsir stjórnarandstöðuþingmenn sett undir sig hausinn, að því er virðist vísvitandi til að nesta umræðuna með rangfærslum. Það er sérkennilegur máti í stjórnmálum að láta sér ekki nægja raunverulegan ágreining um pólitísk markmið, leiðir og aðferðir, heldur leitast við að skrumskæla umræðuna, til þess eins að ná einni línu í fjölmiðlum dagsins. (VigH: Þetta er rangt.) Það er undarleg vegferð í pólitík að jafnaði, en við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi beinlínis ábyrgðarlaust.

Það er því miður hluti af málflutningi stjórnarandstöðunnar í hverju málinu á fætur öðru og endurspeglar að líkindum þá staðreynd að lítið fer fyrir málefnalegu framlagi inn í aðstæðurnar, heldur hefðbundinni skotgrafarnálgun og niðurrifi. (Gripið fram í: Hér eru að hefjast umræður …) Að halda því fram að til standi að standa ekki vörð um hagsmuni Íslands og íslensks atvinnulífs í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn er fráleitt.

Staðreyndin er þessi: Við erum á leið inn í nútímann, inn í þann tíma að Ísland er ekki þjóð sem óskar eftir undanþágum, heldur vill og ætlar að axla sinn skerf af ábyrgð í loftslagsmálum. Samningaviðræðum er hvergi nærri lokið, en markmiðin eru pólitísk. Markmiðin varða ímynd Íslands, markmiðin varða starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, en fyrst og fremst þau að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja heims að því er varðar losunarmarkmiðin fyrir Kaupmannahafnarfundinn.

Þessum markmiðum vill samninganefndin ná í umboði ríkisstjórnar Íslands með því að ganga til viðræðna við Evrópusambandið til að taka þátt í sameiginlegum markmiðum sambandsins, með því að freista þess að hverfa frá undanþáguákvæðinu íslenska og loks með því að tryggja að umskiptin frá íslenska ákvæðinu yfir í viðskiptakerfi Evrópu, fyrir stóriðjuna, ógni ekki íslensku atvinnulífi eða íslenskum fyrirtækjum á nokkurn hátt. Þetta er flókið og viðkvæmt ferli sem samninganefndin okkar hefur með höndum og hefur annast það verkefni með miklum sóma.

Það er brýnt að þing og þjóð standi við bakið á samninganefndinni fram að Kaupmannahafnarfundinum. Enn er ekki vitað hvort yfir höfuð næst samkomulag þar, en við erum lítið land, fámenn þjóð, þjóð sem sannarlega þarf á bættu orðspori að halda.

Frú forseti. Undanþágur eru ekki hluti af rödd framtíðarinnar. Því er það einlægt markmið okkar að losna undan slíku. Ég bið þingmenn stjórnarandstöðunnar að verða okkur samferða inn í nýja tíma og segja skilið við úrelta hugsun og gamaldags nálgun í loftslagsmálum.

Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, talaði í háskólanum á dögunum. Hann var með merkilega nálgun á loftslagsmál og í raun á utanríkismál almennt. Færeyjar eiga ekki aðild að Kyoto, en vilja koma inn í skuldbindingar framtíðarinnar. Kaj Leo sagði: Við skiptum kannski hlutfallslega engu máli þegar litið er á heildarmyndina, en við viljum taka þátt í að axla byrðarnar. Þetta viðhorf býr í sjálfu sér líka að baki láninu sem Færeyjar veittu Íslandi. Lánið er ekki hátt, en sýnir einbeittan vilja þjóðarinnar til að rétta hjálparhönd. Færeyingar gætu orðið okkur fyrirmynd, bæði vinstri og hægri grænum, fyrirmynd þjóðarinnar í mörgum efnum, og m.a. þeim að vilja axla ábyrgð af fullri reisn, vera til fyrirmyndar á hvaða mælikvarða sem er. Við eigum að setja okkur þau markmið að standast samanburð við það besta í heiminum, einsetja okkur það með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi og tryggja að ákvarðanir okkar skerði ekki möguleika, réttindi og tækifæri komandi kynslóða. Loftslagsmálin eru að líkindum stærsta og flóknasta viðfangsefni stjórnmála komandi ára og áratuga og þar má Ísland ekki skorast undan.