138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 23. janúar 2008 spurði ég þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem einmitt var síðasti ræðumaður á undan mér, hvað Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu mikla losun miðað við það að sama ál yrði framleitt í Kína eða Suður-Afríku með brennslu kola. Það er nefnilega mikill vöxtur í framleiðslu áls og í þessum löndum er orkan að mestu leyti framleidd með brennslu kola og olíu. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra svaraði, með leyfi forseta:

„Losun frá kolaorkuveri sem mundi knýja álver jafnstórt álveri Fjarðaáls þegar það verður komið í fulla vinnslu mundi losa um sexfalt meira en því nemur“, þ.e. allri losun umferðar á Íslandi. Virkjun á Íslandi sparar sem sagt mannkyninu gífurlega mikla mengun.

Góður gestur, Pachauri, var í heimsókn á Íslandi. Hann hélt erindi og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Íslendingar hafa forustu á þessu sviði og þeir eiga miklar endurnýjanlegar orkuauðlindir og skilja mikilvægi þess að nota þær. Þær geta miðlað þessu til annarra landa.“ Og hann sér ekkert athugavert við að nota þessa endurnýjanlegu orku í álver. Hann tekur undir þetta sjónarmið mitt, þessi ágæti maður sem er friðarverðlaunahafi á þessu sviði.

Ég legg til að Íslendingar hafi það samningsmarkmið, eftir að hafa keyrt í gegn rammaáætlun sem segir hvað er skynsamlegt að virkja af þessari ónýttu virkjunarorku okkar, að bjóða mannkyninu að virkja eins og sú áætlun leyfir og hanga ekki endilega í einhverjum takmörkunum. Við eigum að bjóða mannkyninu að virkja (Forseti hringir.) eins og sú áætlun leyfir og bjóða það á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.