138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þetta tækifæri til að andmæla honum. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Við getum t.d. byrjað á stefnu okkar sjálfstæðismanna sem flestir Íslendingar virðast fylgja, þ.e. að búa í eigin húsnæði, en um 85% fjölskyldna í landinu búa í eigin húsnæði. Sú stefna virðist hafa verið mjög farsæl fyrir okkur Íslendinga, alla vega líta aðrar þjóðir til okkar öfundaraugum hvað þetta varðar. Það er þó alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefur gefið á bátinn. Það gaf á bátinn í lok 8. áratugarins og aftur núna hjá húsnæðiseigendum og þess vegna viljum við koma þeim til hjálpar við þær erfiðu aðstæður sem þeir búa við.

Hvað varðar atvinnustefnuna er alveg rétt að við leggjum áherslu á að hér verði orkunýtingariðnaður og það verði virkjað m.a. til stóriðju. Hv. þingmaður þylur upp þessa rullu sem ég fæ ekki til að ganga upp rökfræðilega. Hvað kemur það okkur Íslendingum við hvað hvert starf í stóriðju kostar þegar erlendir aðilar borga það og eru tilbúnir til þess? Ég fæ engan veginn skilið hvernig vera má að það sé eitthvað slæmt. (Forseti hringir.) Í seinna andsvari mínu mun ég væntanlega finna til fleira.