138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð búinn að telja hv. þingmanni hughvarf um seinna andsvarið ef vel tekst til. Varðandi húsnæðismálin er mjög margt gott við þessa eigendastefnu í húsnæði sem verið hefur hér á landi undanfarna áratugi. Mesti kosturinn við hana er að sjálfsögðu að hún byggir upp eign fyrir einstaklingana. Það hentar hins vegar ekki öllum að þurfa að standa í slíku vafstri. Fólk vill hafa lausari bönd og geta haft fleiri möguleika og það á að bjóða fólki upp á þá. Þessi húsnæðisstefna undanfarna áratugi hefur ekki verið nægilega farsæl vegna þess að efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa rústað henni með reglulegu millibili, núna í tvígang á 25 ára fresti. Fólk flytur úr landi vegna þessa og því er kominn tími til að hugsa um fleiri möguleika.

Hvað varðar uppbyggingu á stóriðju getur vel verið að útlendingar borgi fyrir byggingu á verksmiðjunni en Íslendingar borga fyrir byggingu á orkuverunum og Íslendingar ákveða að sóa þeirri orku í allt of fá störf. Það er hægt að nota þá orku í miklu fleiri störf. Eitt starf fyrir hvert megavatt er ekki sérlega góð nýting á orku ef hugmyndin er að nota hana til atvinnuuppbyggingar. Þá þarf að hugsa málið frá öðrum hliðum. Ég hef sjálfur starfað við útflutning á áli, komið oft í álver og þekki vel til vaktavinnu í verksmiðjum. Það er einfaldlega hægt að bjóða ungu fólki á Íslandi upp á betri vinnu en það, ekki endilega merkilegri vinnu en betri vinnu en 12 tíma vaktir vikuna út og inn. (Gripið fram í.) Það er til eitthvað sem heitir betri vinna, þægilegri og betur borguð vinna.