138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um hagstjórnarhluta efnahagstillagna okkar sjálfstæðismanna sem tengist beint þessari svokölluðu AGS-áætlun. Það er ljóst að margt hefur út af brugðið þar. Í meginatriðum getum við sagt að samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og AGS skiptist í tvennt. Annars vegar það sem snýr að ríkisfjármálunum, þ.e. krafa um að halla á ríkissjóði verði eytt á tilteknum tíma og fjármálin verði sjálfbær, og hins vegar það sem við getum kallað peningamálahluta áætlunarinnar, þ.e. hvernig við afnemum gjaldeyrishöftin, náum verðbólgu og vöxtum niður og fjármögnum gjaldeyrisvarasjóð okkar Íslendinga sem er óneitanlega einn hluti af því.

Fjármálahlutinn, þ.e. það sem snýr að ríkissjóði, er nokkuð á áætlun. Hér hefur verið lagt fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir því að útgjöld séu skorin niður og tekjur auknar með skattlagningu á fólk og fyrirtæki þannig að áætlunin sé uppfyllt. Ef við skoðum aftur á móti peningamálahlutann hefur þar allt farið úr skorðum út af þessu stóra Icesave-máli og því að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ekki treyst sér til að taka endurskoðun áætlunarinnar fyrir í stjórn sjóðsins, að sögn vegna ótta við að áætlunin eða endurskoðunin verði felld af fulltrúum ríkja Evrópusambandsins. Það er kominn nokkuð mikill halli á þessa áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Peningamálahlutinn hefur tafist í a.m.k. 9 mánuði og ekki er útlit fyrir það í bráð að áætlunin fái afgreiðslu. Það er komin skekkja í þetta vegna þess að fjármálahluti áætlunarinnar, þ.e. ríkisfjármálin, byggði á því að áætlun í peningamálahlutanum stæðist líka, þ.e. gjaldeyrishöft, vextir og annað slíkt. Það er því kominn tími til að endurskoða þessa áætlun, ekki vegna þess að við sjálfstæðismenn teljum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hjálpi ekki til eða við viljum reka hann frá landinu heldur af því að þetta er allt komið á skjön. Jafnframt er fjármögnun áætlunarinnar sennilega vitlaust hönnuð, það er gert ráð fyrir of miklum peningum í hana.

Hvernig getum við komist út úr þessu? Ég held að við Íslendingar ættum núna að taka örlögin í okkar eigin hendur. Það er ljóst að við getum ekki treyst á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í að fjármagna þennan flótta hræddra króna. Við leggjum til í heildstæðri áætlun að sett séu fram fjárlög sem blása til sóknar fremur en leggjast í vörn, þ.e. við viljum ekki skattleggja okkur út úr vandanum. Nægilega mikið hafa ráðstöfunartekjurnar skerst samt og greiðslubyrði lána og annað slíkt hækkað.

Eftir að við höfum fengið trúverðuga áætlun í ríkisfjármálunum viljum við gefa út flokk skuldabréfa sem verða endurgreidd á næstu fjórum, sex, átta árum. Þau verði boðin svokölluðum krónueigendum sem eru með hræddar krónur og settar verða fram aðgerðir til að koma þeim inn í þau bréf. Með því lækkum við þrýsting á íslensku krónuna. Þörfin fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn minnkar og þá styttist í að gjaldeyrishöftin verði felld. Við þurfum að byrja á því að huga að ríkisfjármálunum, eins og ég segi, og það þarf að gefa út þessi bréf. Með því að lækka vexti hrekjast krónur yfir í þessi bréf vegna þess að erlendir krónueigendur vilja væntanlega ekki hafa fjármuni sína á stórkostlega neikvæðum vöxtum. Eftir að þeir hafa verið hraktir þangað, ef við getum orðað það svo, þá afnemum við gjaldeyrishöftin. Með þessu minnkar jafnframt mjög lánsfjárþörfin fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Við viljum þá setja þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður okkur á bið og reyna að ná samkomulagi við Norðurlöndin, Pólland og Færeyjar — Færeyjar eru reyndar óskilyrt — um að breyta lánsloforðum í lánalínur. Það lækkar vaxtakostnað gríðarlega en eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er einmitt mikill vaxtakostnaður. Við sjáum t.d. í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár að íslenska ríkið mun að óbreyttu greiða í kringum 100 milljarða í vaxtakostnað. Það er næststærsti útgjaldaliðurinn, meiri fjármunum er eytt í vexti en heilbrigðismál.

Við höfum reiknað út að sparnaðurinn í vöxtum fyrir ríkissjóð geti numið allt að 16–22 milljörðum á ári ef þessi leið verður farin og ef hún heppnast eins og við leggjum upp með og trúum á. Jafnframt höfum við bent á leiðir til að bæta afkomu ríkissjóðs um 85–90 milljarða þannig að þá erum við komin með yfir 100 milljarða, um 110–115 milljarða, í bætta afkomu ríkissjóðs ef farið verður að okkar tillögum. Við teljum að allt sé til vinnandi að reyna að nálgast málið á þennan hátt og höfum fulla trú á því. Okkur er í raun og veru sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu að því leyti, við viljum gefa ríkisstjórninni góðar hugmyndir til að fara eftir til hagsbóta fyrir Íslendinga. Hvað það varðar tek ég undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Þráni Bertelssyni, að nú er ef til vill lag að leggja vopnin til hliðar og hugsa um og hlusta á tillögur hver annars.

Við höfum ekki fengið fram neitt heildstætt plan í efnahagsmálum, nema frá Framsóknarflokki í febrúar og okkur sjálfstæðismönnum í júní og aftur í október, síðan áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var samin í október, nóvember á síðasta ári. Ríkisstjórninni hefur mistekist að koma fram með heildstætt plan um hvað á að gera. Það hefur leitt til óvissu heimila, fyrirtækja og erlendra fjárfesta um hvað mun gerast í framtíðinni. Við erum mötuð á einu og einu máli, það þarf að leysa þetta mál og þá leysist þetta mál o.s.frv. en okkur er aldrei sýnt heildstætt fram á hvernig þetta á að gerast og það er bagalegt. Ég ætla samt ekki að vera í skotgröfum með það heldur bjóða ríkisstjórninni upp á allt það samstarf sem hún vill til reyna að leysa þessi mál sem ég hef lýst. Ég tel að þessi áætlun okkar gangi upp hagfræðilega og við teljum að hún gangi upp pólitískt líka.