138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Mig langar til að spyrja hann nánar út í hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi afléttingu á gjaldeyrishöftunum. Ég sakna þess svolítið í greinargerðinni með tillögunni að ekki skuli vera farið nánar út í hvernig þeir sjá fyrir sér nákvæmlega að gera þetta.

Einnig langar mig til að heyra skoðun þingmannsins á hugmyndum Stiglitz sem hann kynnti fyrir þingnefndum í heimsókn sinni þar sem hann benti á reynslu Malasíu. Þeir voru með gjaldeyrishöft þar og notuðu skattlagningu á útstreymi til að aflétta þeim, byrjuðu í 40% og enduðu síðan í 0%. Þeir opnuðu líka fyrir erlenda fjárfestingu og Stiglitz talaði um mismunandi skattlagningu og mismunandi meðhöndlun á fjárfestingum og fjármálatengdum gjörningi eða flæði. Það væri mjög áhugavert að heyra skoðanir þingmannsins á því — ég er nokkuð sannfærð um að hann er búinn að kynna sér þessar hugmyndir og fleiri — hvort þetta sé eitthvað sem hann sjái falla undir hugmyndir sjálfstæðismanna eða hvort þetta sé utan við þann pakka.

Ég vil líka benda á að í þeim efnahagstillögum sem framsóknarmenn lögðu fram í febrúar var talað um uppboðsmarkaði. Mér skilst að þetta séu nokkurn veginn tvær hliðar á sama peningnum en það væri mjög áhugavert að fá að heyra frá þingmanninum nánari útfærslu varðandi gjaldeyrishöftin og ef hann er ósammála Stiglitz um það, hver séu rökin fyrir því.