138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég reyni að útskýra aðeins þetta með tvöfalda gengið sem myndast vegna uppboðsmarkaða og bera það saman við stöðuna eins og hún er í dag er ljóst að þessi aflandsmarkaður á krónum er ekki í þökk stjórnvalda og hann endurspeglar raunverulega lekann sem er á gjaldeyrishöftunum. Þetta er slæmt vegna þess að ef þetta er rétt tala hjá hv. þingmanni, að það séu 30 milljarðar sem velt er þarna á mánuði, þá er 10% munur á þessum tveim gengisskráningum sem er þá væntanlega 3 milljarðar á mánuði. Það endurspeglar hve mikið svigrúm er fyrir spillingu og mismun og þess vegna er þetta mjög slæmt.

Það yrði náttúrlega ekki með skipulögðum uppboðum en aftur á móti fáum við með uppboði fram eitt gengi og með þessari hefðbundnu gengisskráningu sem við erum með núna fáum við fram annað gengi. Þá er stutt í hluti eins og bátagengi, innflutningsgengi, útflutningsgengi og að við vefjum okkur inn í haftaárin aftur. Aftur á móti er ég alls ekki á móti því að skoða uppboð ef þau hjálpa við að losa gjaldeyrishöftin og lýsi mig alls ekki mótfallinn því. Auðvitað eru þó gallar við það eins og ég hef bent á en það þyrfti að skoða. Almennt tel ég að þetta plan sem við höfum sett fram um hvernig losa megi gjaldeyrishöftin sé raunhæft (Forseti hringir.) og kæmi þá væntanlega í staðinn fyrir uppboð og annað slíkt.