138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt að einhverjir eiga þessar hræddu krónur og einhverjir vilja taka sitt fjármagn úr landi. Þannig er mál með vexti að þetta kom mikið til út af svokölluðum jöklabréfum þar sem menn stunduðu vaxtamunaviðskipti. Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvaða bankar það voru sem tóku þátt í því, m.a. Alþjóðabankinn sem mér skilst að hv. þingmaður hafi einhvern tímann unnið fyrir þannig að það eru vinnuveitendur hans sem eiga þessar krónur.

Almennt séð fóru um 70% af þessum svokölluðu jöklabréfum í gegnum kanadískt fyrirtæki og voru seld í gegnum Credit Suisse. Eins og þetta hefur verið lagt á borð fyrir menn voru þetta hefðbundnir smáfjárfestar sem tóku smáskammta inn í portfólíuna hjá sér en síðan voru náttúrlega stóru bankarnir eins og Alþjóðabankinn að ávaxta sína peninga á hagkvæman hátt með því að skipta vöxtum með íslensku bönkunum. Ég hef ekki hugmynd hvort sögur um að Íslendingar eigi hluta af þessu eigi við rök að styðjast. Þetta hefur maður heyrt meira í samsæriskenningakreðsunum en í bankakreðsunum og mér er algerlega ómögulegt að svara þeirri spurningu. Ég held þó að þetta séu ekki vondir kapítalistar frekar en eitthvað annað.