138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef heyrt þessa hugmynd hv. þingmanns áður og finnst hún koma úr óvæntri átt. Þetta er mjög róttæk hugmynd og hún á raunverulega heima yst í frjálshyggjunni, eða kannski er þetta anarkismi, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég held að það sé allt í lagi að skoða að skattleggja einkafyrirtæki, hvort sem eigandi og fyrirtæki er þá skattlagt saman með veltusköttum eða einhverju öðru, en ég held að varðandi fyrirtæki á almennum markaði verði alltaf að vera einhvers konar yfirlit yfir hagnað, kostnað og annað slíkt til þess að hlutabréfaverð geti myndast. Án þess að ég hafi mikið spáð í þetta.

Ég hef aftur á móti hugsað mikið um bókhaldsreglur fyrirtækja í kjölfar þessa hruns og skrifaði m.a. fræðiritgerð um það sem birtist held ég í nóvember á síðasta ári. Þar leiddi ég líkur að því að partur af því hvernig fór sé vegna þess hvernig alþjóðlegar reikningsskilareglur eru, hvernig verðmæti eigna er bókfært og hvernig farið er með svokallaða velvild eða góðvild í reikningum fyrirtækja. Þar held ég að sé að leita hluta skýringanna fyrir hruninu. Auðvitað voru þær miklu fleiri en að bókhaldsreglurnar hafi raunverulega drifið áfram (Forseti hringir.) hegðun fyrirtækjastjórnendanna.