138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir sitt innlegg og jafnframt þakka ég honum fyrir hlý orð í okkar garð.

Það er hárrétt hjá þingmanninum að því fylgir trúverðugleiki að vera í áætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar svo er komið eins og fyrir okkur Íslendingum. Vandamálið í þessu öllu er þó að vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið misbeitt af þjóðum Evrópu, þar sem starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ekki verið tilbúnir til þess að fara með afgreiðslu endurskoðunarinnar til stjórnarinnar af ótta við að hún verði felld, hefur tafist sú uppbygging á trúverðugleika sem þarf að eiga sér stað hér á Íslandi. Að einhverju leyti er því hugsanlegt að það sé farið að skemma fyrir okkur að vera í þessari áætlun fyrst að hún getur ekki lotið hefðbundnum lögmálum slíkra áætlana og ber að undirstrika það.

Það að óraunsæi sé falið í því að segja að nýta þurfi orkuna, að það beri vott um einhvers konar 2007-hugsunarhátt — það þarf svo sem ekki að finna nein djúp rök til þess að slá það út af borðinu vegna þess að það er náttúrlega bara ómerkileg aðför að (Forseti hringir.) hugmyndinni.