138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna fengum við að sjá inn í hugskot hv. þingmanns hvað hann átti við með þessum sköttum og hver stuðningur hans er. Það er ljóst að þegar menn tala um skattlagningu orkufyrirtækjanna, eða réttara sagt orkunýtingarfyrirtækja eins og stóriðjunnar, getur maður ekki einn daginn talað eins og aðstoðarmaður fjármálaráðherra Indriði Þorláksson um að það sé engin arðsemi af þessu og ekkert sé á þessu að græða og hinn daginn um að það sé hægt að skattleggja þetta til djöfulsins vegna þess að það sé svo mikill hagnaður af þessu. Þetta gengur bara ekki upp.

Skattlagning á atvinnulíf á Íslandi er algerlega í molum fyrir utan örfá fyrirtæki sem eru í útflutningi og hagnast tímabundið á því hve gengi krónunnar er veikt, þessi málflutningur gengur ekki upp. Ef hann gengi upp værum við á algerum villigötum, þá væri ekkert að í þessu atvinnulífi. Ef ekkert væri að í þessu atvinnulífi á Íslandi mundi ég glaður taka undir: Jú, jú, við skulum bara skattleggja fyrirtækin. Við erum aftur á móti að hindra fyrirtækin í að fjárfesta og ráða til sín fólk með skattlagningu. Það er nákvæmlega sama hvað er sagt í sölum Alþingis, þetta lögmál gildir. Því meiri kostnaður sem fyrirtæki verða fyrir því minni fjárfesting verður og því ólíklegra er að þau fjárfesti. Þetta er engin 2007-speki. Venjulegt fólk skilur að ef kostnaður er hár fer það ekki út í fjárfestingu.