138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að hv. þm. Helgi Hjörvar gerir sér grein fyrir því að arðbær atvinnustarfsemi í landinu er nauðsynleg til að atvinnulíf þrífist yfir höfuð. Þetta er grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja. Það er nákvæmlega nálgun okkar sjálfstæðismanna og felst í okkar tillögum, að efla atvinnulíf okkar þannig að það geti skilað meiri sköttum og meiri og öflugri atvinnustarfsemi en í dag, meiri en þær tillögur sem ríkisstjórnin ber á borð fyrir okkur í sínum tillögum í fjárlagafrumvarpinu.

Ég er ánægður að heyra að ríkisstjórnarflokkarnir virðast vera farnir að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn. Það má segja að við séum búin að stappa þessar tillögur vel ofan í þá. Þetta er orðið eins og barnamatur og tiltölulega auðvelt fyrir þau að innbyrða. Þau virðast átta sig á að það er eitthvað til í því sem við höfum sagt frá því fyrr á þessu ári og þótt fyrr hefði verið því að ef við hefðum farið t.d. þessa skattlagningarleið á lífeyrissjóðina eins og við lögðum til í upphafi frá 1. júní væri staðan kannski allt önnur. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra hefði getað þegið kannski hátt í 20 milljarða sem kæmu í kassann á þessu ári.

Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því í þessari umræðu að sú leið snýr að því að falla frá þeim skattlagningarhugmyndum sem ríkisstjórnin hefur áform um. Hún snýst um að leysa málin með allt annarri nálgun og allt öðrum hætti, með því að breikka skattstofnana, skapa atvinnu, leggja ekki auknar álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu og skapa von og trú á framtíðina. Um það snýst þetta en ekki aukna skattheimtu á einstaklinga og fyrirtæki við þær erfiðu aðstæður (Forseti hringir.) sem mun hefta allan framgang á næstu árum ef af verður.