138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi engan barnamat. Þegar menn koma með raunhæfar hugmyndir og málefnalega umræðu á þessum vettvangi er því auðvitað vel tekið þó að við séum, eins og þingmaðurinn dregur fram, ósammála um skattalegan þátt málsins. Þar gengur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega skemmra en raunhæft er og sýnir að mínu viti ekki nægilega ábyrgð í ríkisfjármálum. Auðvitað er ágætt að keppa að því að fá ný verkefni og nýjar tekjur en þar er fátt í hendi. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, skapa tekjustofna af þeim veruleika sem er í dag og við þurfum að gera það með hóflegum hætti þannig að það hrekji ekki frá fjárfestingu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Ég held þó að þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar, til að mynda af hæstv. fjármálaráðherra hvað varðar orkuskattinn, um 20–30 aura á kílóvattstundina, séu ekki af þeirri stærðargráðu að það muni hrekja frá fjárfestingu. Ég held að t.d. sveiflurnar í launagjöldum stóriðjufyrirtækjanna hafi verið umtalsvert meiri á síðustu missirum þannig að þetta séu ekki neinar stærðargráður í þeim rekstri að það þurfi að hrekja menn frá því að fjárfesta í landinu. Margt hefur verið hagfellt í þróuninni hér fyrir þá, öfugt við ýmsar aðrar greinar.

Megináhersla mín í þessu er að við fórum í óraunsæjar skattalækkanir og það er grundvallaratriði í ábyrgri afstöðu í ríkisfjármálum að eftir þetta hrun þurfum við að afturkalla þær að mestu. Reyndar er það leið sem OECD hefur til að mynda bent okkur á og ég held að flestir sem fara vandlega ofan í ríkisfjármálin komist að raun um að hún sé einfaldlega óhjákvæmileg því það er ekki bara hægt að tala um fugla í skógi.