138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fátt er í hendi í þessum efnum. Ég held að ein 8 ár séu síðan við tókum fyrstu skóflustunguna að Búðarhálsvirkjun, svo dæmi sé nefnt, og enn eru engar framkvæmdir hafnar þar þótt menn tali mikið um orku og stóriðju. Ég held að við eigum aðeins að íhuga hve gjarnir stjórnmálamenn eru á að stíga upp og kalla á stóriðju þegar á bjátar í atvinnumálum. Ég held raunar að það skipti miklu meira máli og sé miklu farsælla að við stjórnmálamenn einbeitum okkur að því að skapa almenn skilyrði fyrir atvinnulífið í landinu í stað þess að ákveða hvar fjárfestingarnar eigi að vera og að þær eigi að vera í einni grein. Ég held að þeir sem eru úti á vettvangi atvinnulífsins á degi hverjum séu miklu betur til þess fallnir en við sem hér sitjum að velja skynsamleg fjárfestingarverkefni og skynsamlegar atvinnugreinar til að ráðast í. Ég held að þar sé útlitið alls ekki eins dökkt og hv. þingmaður vill vera láta.

Við fáum betri tölur um atvinnustigið nú en við áttum von á. Við fáum fréttir af nýjum fjárfestingarverkefnum, t.d. í heilsugeiranum, úr kjördæmi hv. þingmanns í Mosfellsbænum, úr umhverfistækni í nýjum fjárfestingum úti í Svartsengi. Við fáum í dag væntanlega kröfuhafa sem taka yfir Íslandsbanka en það er gríðarlega mikilvægur þáttur í að búa íslensku atvinnulífi bakhjarla, fjármálastofnanir sem eru í færum til að fjármagna ný verkefni á ýmsum sviðum. Það er í raun og veru það sem við eigum að leggja höfuðáherslu á. Þar með þurfum við auðvitað að ljúka Icesave-málinu og koma samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í gegnum endurskoðun svo við getum lækkað vextina og knúið enn fremur öll hjól atvinnulífsins í stað þess að kalla bara „stóriðja, stóriðja“ því það er, eins og hv. þingmaður segir, fugl í skógi.