138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa ræðu. Ég er sérstaklega ánægður með að hann virðist ekki hafa fundið neitt gat í röksemdafærslu okkar sjálfstæðismanna. Þetta var meira almennt rövl. (Fjmrh.: Almennt hvað?)

Það sem þessi áætlun okkar gengur út á — hún er þríþætt. Hún gengur út á skuldastöðu heimilanna, ríkisfjármálin og hagstjórnina og mestu púðri var eytt í ríkisfjármálin. Sú áætlun sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram fyrir skemmstu byggir á áætlun AGS sem hæstv. fjármálaráðherra kom hvergi nálægt. Það var gert í annarri ríkisstjórn sem hann var ekki í.

Hvað varðar lífeyrissjóðahugmyndina er ágætt að fara yfir kosti og galla hennar. Það er ljóst að tekjutengingar í framtíðinni á bótaflokkum (Forseti hringir.) munu minnka þörf ríkisins fyrir skatttekjur þannig að það kemur hvert upp á móti öðru eftir því sem tekjur frá lífeyrissjóðum aukast.