138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nota þá þetta síðara andsvar mitt til að útskýra betur hvað ég á við með hvernig tekjutengingar bóta leiða til þess að skattþörf ríkisins minnkar í framtíðinni og þar af leiðandi þessa helstu gagnrýni hæstv. fjármálaráðherra á að við séum að taka skatttekjur af framtíðinni og færa þær hingað, sem er rétt, og það muni geta leitt til vandamála í framtíðinni. Það er ekki rétt út af tekjutengingunum. Megnið af tekjum eldra fólks í framtíðinni mun koma af lífeyrissjóðunum en ekki úr almannatryggingakerfinu eins og kannski er núna. Almannatryggingakerfið vegna tekjutenginganna mun hverfa og þar með þörfin fyrir skatta.