138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu og hans innlegg í hana líka. Ég met það mikils (Gripið fram í.) og ég meina það sem ég segi. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga í þessum rökræðum vegna þess að það eru kostir og gallar við allar leiðir. Ég fagna því að ráðherrann skuli taka undir sumt af því sem við segjum en ég átti reyndar aldrei von á að hann tæki undir þær allar. Ég held þó að þetta skili okkur áfram veginn að vitrænni niðurstöðu. Það er ekki hægt að segja um marga aðra ráðherra í salnum að þeir hafi áhuga á því, þannig að það er virðingarvert hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við það ef við ykjum þorskaflann um 40.000 tonn. Það gæfi 18 milljarða í tekjur sem þýddi 60 milljarða inn í hagkerfið og með þessari aðgerð mundi veiðistofninn hækka um 14.000 tonn og hrygningarstofninn vera nánast sá sami. Hvað finnst honum um þessa hugmynd?