138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki rekist á þetta í tillögunni. Ég taldi mig hafa lesið hana en sá ekki tillögur um að auka kvóta. (EyH: Engar tölur?) Nei, en kannski er þetta einhvers staðar í greinargerðinni. (JónG: Lestu betur.) Það væri gaman að vita hvort full samstaða sé um það meðal sjálfstæðismanna að bæta svona myndarlega við kvótann. Auðvitað hefur þetta oft verið rætt og við þekkjum deilurnar um það hvort menn eigi að halda sig við ráðgjöf þar til bærra aðila eða ákveða þetta á öðrum forsendum að hluta til.

Ég mundi segja að við þessar aðstæður væri ákaflega freistandi að fara vel yfir það í hvaða tilvikum það væri talið vera vel innan ásættanlegra áhættumarka miðað við sjálfbæra nýtingu og uppbyggingu fiskstofna að auka eitthvað veiðiheimildir. Því miður gerðist það ekki í síðustu ráðgjöf heldur hið gagnstæða, þar voru tillögur um að draga úr sókn í marga mikilvæga nytjastofna. Eftir standa þó kannski tveir, þrír sem hugsanlega þyldu meiri veiði auk þess sem spurningin er hvort við eigum að ætla okkur meiri hlut í sumum deilistofnum sem standa vel. Við gætum fært ýmis rök, (Forseti hringir.) bæði efnahagsleg og líffræðileg, fyrir því að við ættum að fá vaxandi hlutdeild í t.d. makríl og norsk-íslenskri síld.