138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir mjög áhugaverða og skemmtilega umræðu. Ég verð hins vegar að lýsa yfir áhyggjum mínum af hæstv. fjármálaráðherra. Í ræðu hans var mikið af áhugaverðum punktum og hann virtist taka undir margar af hugmyndum sjálfstæðismanna. Spurningin er hvort það sé orðið of mikið álag á ráðherranum því menn voru virtust tala hvor í sína áttina hér áðan. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það hefur verið geysilegt álag á forustumenn ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur og mánuði.

Hins vegar eru hér mjög margar áhugaverðar tillögur. Þær bætast við, eins og kom fram áður, hóp tillagna annarra flokka, svo sem Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Þetta er náttúrlega mál sem við öll höfum áhyggjur af. Við gerum fátt annað hér á þinginu en að ræða efnahagsmál nú orðið. Eins og kemur fram í ályktuninni er í fyrsta lagi bent á hvernig umfang hins opinbera hefur aukist. Ég tel að hér sé að vissu leyti verið að taka undir tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi samdrátt í útgjöldum. Það er lagt til að dregið sé saman um 5% í heilbrigðis,- mennta- og velferðarkerfinu og 10% á öðrum sviðum, ívið meira en ríkisstjórnin hefur talað um.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom upp í ræðustól og flutti möntru Samfylkingarinnar um að það virðist vera skattalækkunum Sjálfstæðisflokksins að kenna hvernig staðan er í ríkisfjármálunum. Ég benti á í andsvari við hv. þm. Bjarna Benediktsson að svo virtist sem Samfylkingin hefði ekki sérstaklega miklar áhyggjur af þessum miklu skattalækkunum samstarfsflokks síns þegar þeir voru í ríkisstjórn, enda hækkuðu þeir held ég útgjöldin til sinna eigin ráðuneyta um fleiri tugi prósenta. Þar á meðal held ég að þeir geti ekki einu sinni sagt að það hafi verið vegna þess að þeir hafi haft svo mikinn áhuga á velferðarmálum, því í þeirri ríkisstjórn voru þeir með eitt svokallað velferðarráðuneyti, sem er félagsmálaráðuneytið. Þó var það nú svolítið frekt til fjárins enda með núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur þótt fremur frek til fjárins.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst mjög athyglisvert að flokkur sem hefur einmitt talað mikið fyrir skattalækkunum komi með mjög áhugaverða tillögu varðandi skattahækkanir. Það er náttúrlega það sem lagt er hér til varðandi skattlagningu á inngreiðslum í lífeyrissjóði. Ég segi fyrir mig að mér finnst þetta mjög áhugaverð tillaga og fannst hún strax áhugaverð þegar hún kom fram í sumar. Mér skilst að t.d. hafi viðskiptaráð tekið undir þessa tillögu og frekari útfærslu á henni. Síðan er viðbót í greinargerðinni sem var ekki í þeirri tillögu sem var lögð fram á sumarþinginu um að hugsanlega mætti fara fram einhvers konar uppgjör á séreignarsparnað. Í greinargerðinni er talað um að þar gæti hugsanlega komið til eingreiðslu til ríkissjóðs upp á 115 milljarða og síðan væru 13 milljarðar árleg skattlagning á inngreiðslunni.

Ég vil taka undir það sem kemur líka fram í þessari greinargerð, þ.e. mikilvægi þess að þetta sé gert í góðu samstarfi og samráði við aðila vinnumarkaðarins og það sé þess háttar samráð að menn setjist saman við borð en ekki séu haldnir upplýsingafundir eins og við í stjórnarandstöðunni höfum fengið að upplifa undanfarnar vikur og mánuði þegar talað er um hið svokallaða samráð við okkur. Mér hefur fundist eins og hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og skattanefndar, sem tók undir þessa tillögu að vissu leyti og sagði að hún væri áhugaverð og þetta væri þess virði að skoða.

Ég gat ekki skilið ræðu hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en að hann væri tilbúinn til þess að skoða þessa tillögu líka og hann ræddi sjálfur aðrar útfærslur sem hann sá fyrir sér. Ég vona því svo sannarlega að þegar við loksins sjáum þessi blessuðu frumvörp sem varða tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins verði þetta ein af þeim tillögum sem menn skoði mjög alvarlega. Ýmsir þættir eru inni í núverandi fjárlagafrumvarpi og reyndir menn sem þekkja til vinnu við fjárlagafrumvarp ríkisins benda á að vandamálið við þá vinnu er aldrei gjaldahliðin. Vandamálið er alltaf tekjuhliðin. Svo virðist sem menn hafi farið í ýmis hókus-pókus-trix við að klára gatið á núverandi fjárlagafrumvarpi og síðan eigi nánari útfærsla að koma seinna í viðkomandi skattafrumvörpum.

Ég tel að þessi tillaga um 16 milljarða sem eigi að koma með auðlindaskattinum sé einmitt tilraun til þess að loka gati. Það vantar 16 milljarða og þá þótti brilljant að leggja til auðlindaskatt. Síðan tala menn um að það þurfi að breikka skattstofninn varðandi virðisaukann. Það sem maður stoppar svolítið við er að gert er ráð fyrir því að það sé hægt að breikka hann það mikið að hann aukist töluvert frá 2009 til 2010, þrátt fyrir þennan fyrirhugaða samdrátt og auknar álagningar svo sem í gegnum tekjuskatt á heimilin í landinu. Ég tel því að ýmislegt þyrfti að skýra betur og þessar hugmyndir varðandi skattlagningu á inngreiðslu gætu hugsanlega komið á móti til þess að fylla upp í það gat sem ég tel vera til staðar í núverandi fjárlagafrumvarpi.

Annað sem kemur fram hér er að töluvert er talað um mikilvægi atvinnurekstrar. Þessa hugsun held ég að við framsóknarmenn eigum sameiginlega með sjálfstæðismönnum, að það skipti máli að við höfum sterkt og öflugt atvinnulíf og að ríkið búi ekki til tekjur heldur atvinnulífið. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn lýst yfir miklum áhyggjum af því t.d. hvernig atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur birst á undanförnum vikum. Sérstaklega hvað það varðar, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, að þótt búa eigi til almenn skilyrði fyrir atvinnulífið virðast þessi almennu skilyrði sem er verið að búa til núna vera stórvarasöm og einmitt draga úr hvötum fyrir fyrirtæki eða einstaklinga til þess að fjárfesta í framtíðinni.

Ég vil benda á að bæði á Húsavík og Suðurnesjum hafa menn í mörg ár verið að reyna ýmislegt annað, allt frá því að einhverjir fengu þá flugu í höfuðið að fara hugsanlega í krókódílarækt fyrir norðan yfir í að byggja upp sjúkrahús, gagnaver, álver og ýmiss konar aðra atvinnustarfsemi eins og á Suðurnesjum. Menn hafa virkilega reynt að vinna í að fá fjárfestingu og byggja upp atvinnulífið. Það er náttúrlega mjög erfitt að horfa upp á það að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar setji hreinlega fótinn fyrir þessa uppbyggingu.

Mér fannst líka annað mjög áhugavert sem kemur hér fram og það eru þessar tillögur um endurskoðun á aflaheimildum. Ég hef sjálf heyrt að þessi niðurskurður sem var farið í núna, t.d. á ýsu, geri það að verkum að það mjög erfitt reynist að fara í þorskveiði. Það er nú því miður þannig að fiskarnir vilja blanda sér saman í sjónum og þegar þeir gera það og skipið er ekki með aflaheimildir í viðkomandi tegund verða menn annaðhvort að hætta veiðum eða, eins og því miður getur gerst, fara í brottkast.

Ég fór líka upp í andsvar þar sem ég var að velta fyrir mér þessum hugmyndum varðandi gjaldeyrishöftin. Þá kemur upp eins og ég benti á að við erum auðvitað öll sammála um að við viljum losna við þetta. Við erum hins vegar núna að rökræða um hugmyndafræði og sjálfstæðismenn hafa lagt fram eina ákveðna tillögu. Ég tek líka undir það sem lagt er til í tillögu sjálfstæðismanna um að reyna frekar að horfa á möguleikann á lánalínum til þess að draga úr vaxtakostnaði og raunar líka frystingu til þess að nota peninga sem maður á inni á reikningum, eins og m.a. Joseph Stiglitz (Forseti hringir.) benti á að gæti alltaf verið ákveðin áhætta, bæði fyrir stjórnmálamenn og embættismenn í seðlabanka.