138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar umræðu vil ég taka fram að ég tel að almennt eigi sú regla að gilda að atvinnuvegir séu skattlagðir nokkurn veginn með sama hætti, óháð því um hvaða atvinnugrein er að tefla. Ég tel hins vegar einnig að þær atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir, hvort sem það er orka, fiskur eða annað, eigi jafnframt að greiða auðlindagjald og það eigi að endurspegla þau verðmæti sem þeim hafa verið afhent. Ef þannig er staðið að málum á það ekki að koma í veg fyrir samkeppnishæfni þessarar atvinnustarfsemi á Íslandi af þeirri einföldu ástæðu að gjaldið væri í eðlilegu samræmi við þau hlunnindi sem greinarnar njóta.