138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Það var ágætt, sérstaklega innlegg um séreignarsparnaðinn þar sem hann sagði með réttu að það væri eins konar bókhaldsfiff að færa til tekna í dag eitthvað sem ríkissjóður á nú þegar. Það er verið að „realisera“ eign. Ég hins vegar lít þannig á að á því augnabliki sem lífeyrissjóðirnir greiða eða afhenda skuldabréf inn í ríkissjóð fyrir þessari eign sé það orðin eign ríkissjóðs og tekjur á því ári.

Í því sambandi vil ég minna hæstv. ráðherra á að hæstv. fjármálaráðherra í umboði hans skrifaði undir Icesave-samning þann 5. júlí, ef ég man rétt. Það er gífurleg skuld, miklu stærri en þetta, 700 milljarðar. Sú upphæð hefur borið á þessu ári 35 milljarða í vexti og Alþingi er búið að samþykkja lög sem negla þetta niður með ríkisábyrgð. Hvers vegna í ósköpunum er ekki getið um þetta í fjáraukalögum eða í fjárlögum fyrir næsta ár, þessa skuld og þessa vexti? Þetta er nákvæmlega það sama og séreignin sem er færð yfir til tekna, nema með öfugum formerkjum. Þetta á að sjálfsögðu að færa til skuldar því það er búið að ganga frá þessu, það er búið að „realisiera“ þessa skuldbindingu inn í ríkissjóð. Ég spyr því hæstv. ráðherra sem fól fjármálaráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar að skrifa undir þetta samkomulag: Af hverju er þetta ekki í fjáraukalögum, 35 milljarðar og skuldin öll og síðan 35 milljarðar á næsta ári sem vextir af þessu fé?