138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í salnum í dag sem hefur verið ákaflega góð, held ég, og margt gagnlegt sem komið hefur fram í tillögum sjálfstæðismanna sem ber að taka til umræðu í nefndum Alþingis á milli umræðna um frumvarp til fjárlaga. Ég fagna því innleggi sjálfstæðismanna í þá umræðu.

Í morgun komu fram í máli formanns Sjálfstæðisflokksins athyglisverð ummæli þar sem hann sagði frá því að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi hefði fundað með þingflokki sjálfstæðismanna, farið þar yfir stöðuna og talið að íslenska ríkið væri búið að uppfylla öll þau skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fyrir endurskoðun á stöðu mála á Íslandi, eins og formaðurinn sagði. Búið er að haka í öll boxin, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins í morgun. En mér fannst vanta upp á að það fylgdi þá útskýring, annaðhvort formanns Sjálfstæðisflokksins eða annarra sjálfstæðismanna, á því hvað vantaði þá upp á, á hverju strandaði þá og hvernig menn sæju fram úr því að ætla sér að leysa það. Þessi ummæli formannsins komu fram í andsvari hans í morgun, ég hafði því ekki tök á að bregðast við því þá en spyr hv. þm. Illuga Gunnarsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins: Hvaða skýringar gaf fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og hvað telur þingmaðurinn að valdi þessum töfum? Í hvaða box á eftir að haka?