138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef það hefur ekki fylgt með í svörum fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þingflokksfundi sjálfstæðismanna hvaða skýring er á þessum drætti, á endurskoðun efnahagsáætlunar á Íslandi, fyrst hann telur svo vera að íslenska ríkisstjórnin hafi fullnægt öllum þeim skilyrðum sem hafa verið sett til þeirrar skoðunar, þ.e. að haka í öll boxin eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þingræðu í morgun. Það er reyndar ekki langt síðan, ekki lengra síðan en í síðustu viku að hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði úr þessum sama stól að endurskoðun eða samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði engu skilað og við værum ekkert að þokast áfram í því samstarfi og ekki væri á neinu góðu að vænta úr þeirri áttinni.

Í þingsályktunartillögum sjálfstæðismanna um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála á Íslandi kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn hyggst halda áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þó að einhver vafi hafi leikið á því um tíma ef marka má orð þingmanna í þessum sal. Formaður Sjálfstæðisflokksins tók af öll tvímæli um það í morgun og undirstrikaði það að Sjálfstæðisflokkurinn mundi halda þessu samstarfi áfram. Formaður þingflokksins gerði það sömuleiðis. Þá hlýt ég að spyrja: Hvaða hugmyndir hafa sjálfstæðismenn um að leysa þá deilu? Hvernig ætla þeir að halda því starfi áfram með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ef á eftir að haka í þetta eina box til að við getum þróað málin áfram? Munu þeir styðja þá lausn að Icesave-deilunni sem fer að birtast innan fárra daga eða munu þeir mótast við áfram og reyna að spyrna við fótum?