138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum bráðaaðgerðir í efnahagsmálum sem við sjálfstæðismenn lögðum fram. Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag og sérstaklega hrósa stjórnarþingmönnum fyrir þeirra innlegg í málið. Mér finnst að þeir hafi komið mjög málefnalega að þessari umræðu og þetta eru ákveðin vatnaskil í því að menn fari að bera virðingu fyrir skoðun hver annars en mér hefur oft þótt vanta upp á það. Það er nefnilega mjög hættulegt ef einhver heldur að hann sé sá eini sem hafi allar réttu lausnirnar. Ég vona að það sama verði varðandi fleiri tillögur sem verða ræddar í þinginu.

Þessar tillögur ganga helst út á að það er boðaður niðurskurður og þar erum við svo sem ekki mikið á skjön við það fjárlagafrumvarp sem lagt hefur verið fram. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það þurfi að skera niður í ríkisútgjöldum, það væri ósanngjarnt og óábyrgt af okkur að halda öðru fram. Hins vegar er ekki sama hvernig það er gert og það er mjög hættulegt að fara í svokallaðan flatan niðurskurð og eins og einn hv. þingmaður sagði í síðustu viku í umræðum um fjárlagafrumvarpið er það kallað stjórnsýsluleti. Hins vegar fagna ég yfirlýsingum margra stjórnarþingmanna og hæstv. ráðherra um að menn eru farnir að sjá ágallana á því og skoða það með öðrum hætti.

Það sem kannski ber mest á milli í þessum tillögum okkar er kerfisbreyting á skattkerfi, hvernig við öflum skatttekna. Ég hef sagt í umræðum um fjárlagafrumvarpið að ég hræðist mjög þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar, að skattleggja fjölskyldurnar meira en nú er gert. Ég er rosalega hræddur við það. Ég er hræddur um að það muni ekki skila neinum árangri enda kemur í ljós við endurskoðun á fjáraukalögum að skatttekjurnar eru mun minni en reiknað var með. Það eru ákveðin þolmörk. Síðan geta menn fært ákveðin rök fyrir því að menn ætli að að færa þau í 27% miðað við landsframleiðslu eins og var fyrir 3–4 árum en þá voru aðstæður í þjóðfélaginu allt öðruvísi. Þá var ekki þessi niðursveifla, nú höfum við 11,4% samdrátt í hagvexti og kaupmáttarrýrnun, atvinnuleysi og þar fram eftir götunum, þannig að ég tel að þessi leið sé ófær. Við sjálfstæðismenn leggjum hins vegar fram tillögu um breytingu á skattgreiðslum í lífeyrissjóðakerfinu sem hefur fengið góðar undirtektir og ég vænti þess að við munum skoða hana betur.

Við leggjum líka til að hlúa þurfi að og byggja upp öflugt atvinnulíf, hvort heldur sem er stóriðja eða að bæta við aflaheimildir. Það hefur stundum verið skrumskælt í dag að þessir orku- og auðlindaskattar séu sanngjarnt gjald á þessa stóriðju sem er en ég vil vekja athygli á því að þessir skattar fara alls ekki allir beint þangað. Þetta fer líka á heimilin í landinu, öll önnur fyrirtæki í landinu, sjávarútvegsfyrirtækin, sama hvar er. Menn verða að átta sig á því.

Síðan viljum við bæta við aflaheimildir en ég ætla að koma betur inn á það á eftir. Við þurfum að komast út úr þessum gjaldeyrishöftum og okkur greinir örlítið á um hvernig skynsamlegt sé að gera það en ég ætla að vona að við ræðum okkur niður á sameiginlega lausn í þeim málum.

Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að við tökum á skuldavanda heimilanna. Við lögðum fram efnahagstillögur á vormánuðum sem gengu einmitt út á það. Þær fengust ekki ræddar eins og þær tillögur sem við erum að ræða núna en það hefði kannski verið betur hlustað á okkur fyrr í vor. Við vorum kannski þroskaðri í umræðunni þá og hefði verið gripið til þeirra aðgerða þá værum við kannski betur stödd í dag. Ég vil hins vegar nota tækifærið og fagna þeim tillögum sem hæstv. félagsmálaráðherra boðar og verða kynntar á morgun eða á útbýtingarfundi. Ég tel þær reyndar ganga aðeins of stutt en ég fagna því að það er þó spor í rétta átt.

Mig langar að koma aðeins inn á það sem við viljum gera í sambandi við veiðiheimildir. Það er gert með mjög ábyrgum hætti. Hér koma ekki fram tölur en ég ætla að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem við höfum uppi um það. Við viljum að 40 þús. tonnum verði bætt við þorskkvótann strax. Það eitt og sér mun skaffa 18 milljarða í beinar tekjur, 18 milljarða inn í hagkerfið. Þetta er gert með þeim hætti að það mun ekki minnka hrygningarstofninn eða minnka veiðistofninn. Veiðistofninn mun meira að segja vaxa örlítið sem þýðir í raun og veru að við ætlum að fresta uppbyggingu stofnanna núna og halda þeim í skefjum eins og sagt er. Við þurfum þessa innspýtingu í hagkerfið. Við viljum að 7 þús. tonnum verði bætt við ýsuna sem gefur um 2 milljarða í tekjur og það er mjög varlega farið. Síðan viljum við að 15 þús. tonnum verði bætt við ufsann sem skapar um 2,5 milljarða í tekjur. Bætt verði 3 þús. tonnum við grálúðuna og það skapar 2 milljarða. Það er líka mjög sérkennilegt að grálúðan skuli vera skorin niður við þessar aðstæður vegna þess að þetta er stofn sem er ekki búið að ná samkomulagi um hvernig á að veiða. Hvorki Færeyingar né Grænlendingar munu skera sínar veiðiheimildir niður í þeim stofni þannig að það er ekki skynsamlegt að gera það með þeim hætti. Annars vegar hníga mörg önnur rök að því að við vitum mjög lítið um grálúðuna og eins hefur t.d. aldrei veiðst smágrálúða við Íslandsstrendur. Ég tel þetta mjög skynsamlegt enda er þetta það sama og við höfum veitt mörg undanfarin ár og minna á árinu á undan.

Einnig þyrfti að bæta við skötuselinn að lágmarki 1.500–2.000 tonnum sem skaffar tæpan milljarð í tekjur. Það er reyndar alveg óskiljanlegt að þessi ránfiskur skuli vera friðaður því útbreiðsla hans hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Hann er alltaf að færast norðar og norðar, hann veiddist djúpt suður í köntum til að byrja með en nú er hann kominn fyrir Norðurlandi. Þetta er alger ránfiskur. Að upplifa núna í upphafi kvótaársins að menn skuli þurfa að hætta veiðum vegna þess að þá vanti örfá tonn í skötusel vegna meðalafla er með ólíkindum. Við erum í raun og veru að kasta verðmætum á glæ með því að nýta þessa tegund ekki meira.

Síðast en ekki síst höfum við hagað okkur mjög illa og gengið mjög illa um makrílstofnana og því þarf að breyta. Við höfum verið í ólympískum veiðum en þær ganga út á að menn reyna að búa sér til aflareynslu. Menn hafa nýtt lítinn hluta, einungis 30 þús. tonn af 116 þús. tonna veiði er nýtt til manneldis. Ef við bara veiddum sama magn af makríl og mundum skikka skipin til að veiða hann til manneldis sköpuðum við 8 milljarða til viðbótar í tekjur. Þarna erum við ekki ábyrg í því sem við erum að gera. Þetta er eingöngu vegna þess að menn eru í keppni af því að það er heildarkvóti og menn moka þessu í bræðslu. Það væri skynsamlegast fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, vegna þess að um þetta standa deilur af því að það er deilistofn á milli ríkja, að hann mundi gefa það út að þeir sem stunduðu þessar veiðar fengju eingöngu úthlutað til þess sem þeir veiddu til manneldis eða hreinlega banna að veiða þennan stofn nema eingöngu til manneldis. Þá þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það mundi skapa 8 milljörðum meiri tekjur. Þetta erum við að gera á þessum tímum og það er mjög óábyrgt. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Bara þessar tölur sem ekki eru inni í heildartölum okkar sjálfstæðismanna í þessum efnahagstillögum þýða auknar tekjur eða þjóðarframleiðslu upp á 33 milljarða. Ragnar Árnason og fleiri hafa skilað af sér mjög merkilegri skýrslu en þar kemur fram að öll fjárfestingin er til staðar í greininni. Við þurfum ekkert að fjárfesta. Það þarf bara að taka ákvörðunina og þá koma peningarnir inn. Við eigum skipin, húsin og markaðina þannig að þetta er þreföldun inn í hagkerfið sem þýðir tæpra 100 milljarða innspýtingu í hagkerfið.

Virðulegi forseti. Þessu þurfum við á að halda núna. Við verðum að nýta þetta og við getum horft til hvernig Færeyingarnir unnu sig út úr kreppunni. Menn verða að framleiða, búa til störf og búa til tekjur en við getum ekki skattlagt íslenskar fjölskyldur og heimili meira en gert er í dag. Innst inni erum við öll í þessum sal sammála um að íslenskar fjölskyldur þola ekki frekari álögur við þessar aðstæður sem eru núna. Það versta er þó að þegar menn fara að hækka bæði tekjuskattinn og allt saman, síðan á að hækka óbeinu skattana og við erum með þessa verðtryggingu sem við þurfum að vinna okkur út úr og komast frá, annars hækka öll lánin. Þetta er katastrófa og þessu verðum við að snúa á betri veg. Það er skylda okkar að gefa fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu von því þau þurfa svo sannarlega á því að halda um þessar mundir.