138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera mjög góð umræða og að mestu leyti málefnaleg. Okkur er óneitanlega mikill vandi á höndum eftir hrunið. Mikill halli ríkissjóðs blasir við, það er atvinnuleysi og gjaldþrot í þjóðfélaginu, fyrirtæki fara á hausinn og fólk er orðið atvinnulaust.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlagafrumvarpinu sem var dreift hér 1. október. Því miður verður að segjast, frú forseti, að þar birtist sú stefna að skattleggja tekjur, skattleggja sparnað, skattleggja orku og að skera niður velferðarkerfið og sá niðurskurður virðist vera því miður nokkurn veginn flatur. Það eru engar sérhugmyndir um hverju eigi að hlífa. Mér finnst að þessi stefna ríkisstjórnarinnar rífi niður í stað þess að byggja upp. Hún getur valdið ákveðnum vítahring þar sem hvert leiðir af öðru og við stefnum alltaf í verri og verri stöðu. Það vantar auk þess mjög stóra þætti inn í fjárlagafrumvarpið sem og fjáraukalagafrumvarpið, t.d. varðandi tónlistarhúsið og Icesave, en ríkisstjórnin er búin að taka ákvörðun um hvort tveggja.

Einnig þarf að ræða um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann kom okkur til aðstoðar en þar sem hann er notaður til að neyða upp á okkur samninga um Icesave finnst mér hann vera farinn að verða ansi dýr. Það er því spurning hvort ekki sé betra að borga eitthvað hærri vexti af lánum eða lægra lánshæfismat en að borga þau ósköp sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kostar. Auðvitað þarf að ræða við hann um hvernig hann hefur verið misnotaður, auk þess sem sá niðurskurður sem hann krefst getur verið hættulegur. Það er nefnilega hættulegt að skera velferðarkerfið of mikið niður, sérstaklega þegar farið er að skerða t.d. menntun.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst núna, ári eftir hrun, margt vera miklu bjartara og betra en ég hugði fyrir ári síðan. Í lok febrúar sl. hafði ég sérstaklega miklar áhyggjur og þá ekki af stöðunni á Íslandi heldur alþjóðlega. Allt virtist vera á niðurleið um allan heim, alls staðar. Síðan gerist það eftir 6. mars, það er dálítið merkileg og dularfull dagsetning, að allar vísitölur, olíuverð og annað virðist aftur hjarna við og staðan batnaði. Þá má segja að myndast hafi forsenda fyrir því að Íslendingar gætu tekið á sínum vandamálum því við erum mjög háð gengi alls heimsins í viðskiptum.

Það sem er jákvætt hér á Íslandi er gífurlegur sparnaður almennings. Krónan hefur fallið sem mörgum finnst náttúrlega mjög slæmt, sérstaklega þeim sem skulda í erlendri mynt, en það hefur búið til sveigjanleika fyrir atvinnugreinarnar, sérstaklega útflutning. Þær þrjár greinar sem standa eftir, þ.e. sjávarútvegur, áliðnaður og iðnaður almennt og ferðamannaþjónusta njóta þess að krónan hefur fallið svona mikið. Atvinnuleysi er minna en ætlað var, það er 7,2%, og núna er loksins farið að sjá fyrir endann á vandamálum bankanna. Þessa dagana, í morgun og í næstu viku. Fyrir viku síðan var Landsbankinn leystur úr höftum, núna er farið að sjá til lands með að þeir geti dælt þessum óhemjusparnaði aftur út í atvinnulífið. Margt er því jákvætt.

Það verður að taka á vanda þeirra heimila og fyrirtækja sem verst eru sett og efnahagstillögur sjálfstæðismanna ganga út á það. Þeir einstaklingar sem eru atvinnulausir eru að sjálfsögðu verst settir. Það er hræðilegt fyrir utan bölið sjálft að takast á við tekjumissinn og óöryggið sem fylgir því og við Íslendingar eigum ekki að láta svona mikið atvinnuleysi viðgangast. Út á það ganga hugmyndir okkar sjálfstæðismanna, að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu. Þá lagast hitt af sjálfu sér. Ef fólk getur unnið virðast önnur vandamál minni.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, nefndi að sjálfstæðismenn ætluðu hvorki að skattleggja heimilin né fyrirtækin og hvað þá? Það er einmitt málið. Hvað þá? Þá kemur þessi hugmynd um lífeyrissjóðina. Ég ætla að fara sérstaklega inn á það. Ég ætla t.d. ekki að tala um að auka aflaheimildir eins og menn hafa nefnt hér sem er afskaplega skynsamlegt til þess að brúa þetta bil. Þetta eru ekki nema tvö, þrjú ár, frú forseti, sem þjóðin þarf virkilega að komast yfir. Það er bara spurningin um hvort eftir þessi tvö, þrjú ár við sitjum uppi með spíral sem leiðir okkur alltaf dýpra og dýpra eða hvort við verðum þá komin yfir gjána. Þess vegna getur verið skynsamlegt að veiða örlítið meiri þorsk í tvö, þrjú ár og eins getur verið skynsamlegt að skattleggja lífeyrissjóðina. Reyndar hafði ég miklar efasemdir um skattlagningu sameignarsjóðanna vegna þess að fólk með lágan lífeyri borgar oft ekki skatt. Ef inneign þeirra eða eign yrði skert með flatri skattlagningu mundi það fólk líða fyrir það auk þess sem skipta þyrfti sjóðunum upp í tvennt.

Þá kemur hugmyndin um séreignarsjóðina. Í séreignarsjóðunum munu verða um næstu áramót u.þ.b. 309 milljarðar, ég hef metið það þannig. Metin iðgjöld eru 35 milljarðar á árinu 2010. Staðgreiðsla af þessum upphæðum ef við skattlegðum alla inneign lífeyrissjóðanna yrði 113 milljarðar og síðan 12 eða 13 milljarðar á ári hverju. Það mundi skiptast þannig að sveitarfélögin fengju 40 milljarða, og veitir nú ekki af því efnahagur þeirra er ekki það beysinn, og ríkissjóður fengi 75 milljarða á næsta ári. Nú hafa margir haldið því fram, þar á meðal SA, að þetta gæti verið slæmt en svo er ekki vegna þess að hjá flestum sem eru með séreignarsparnað og taka hann út lendir hann fyrir ofan skattleysismörk. Ég fullyrði, nánast allir. Þeir munu borga 37,2% eða þá staðgreiðsluprósentu sem verður í gildi á þeim tíma. Síðan mætti leysa þetta þannig að það skipti engu máli fyrir einstaklinginn hvort þetta væri tekið strax af eða þegar verður greitt út. Ef hann fær ávöxtun á þetta, á sína innistæðu, er hún skattlögð líka þegar þetta er tekið út. Það breytir því engu fyrir einstaklinginn hvort skatturinn er tekinn af lífeyrissjóðnum strax eða þegar séreignin er greidd út.

Síðan er spurningin hvað gerist ef lífeyrissjóðirnir þurfa að borga 40 milljarða til sveitarfélaganna og 75 milljarða inn í ríkissjóð. Það mætti leysa mjög einfaldlega, frú forseti. Lífeyrissjóðirnir hreinlega gefa út skuldabréf sem sveitarfélögin og ríkissjóður meta gild. Þessi skuldabréf gætu verið til mjög langs tíma og ef ríkissjóður þarf fjármuni getur hann jafnvel selt þessi skuldabréf á markaði og losað þannig um fé. Ég er viss um að margir mundu vilja kaupa skuldabréf sem t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gefið út til að greiða skatt af séreignarsparnaði. Það yrði örugglega mjög trygg ávöxtun á því. Með þessum hætti má leysa það vandamál sem menn standa frammi fyrir núna að brúa þessa gjá. Við gætum ekki gert ríkissjóð alveg hallalausan en við færum mjög langt með það með því að taka inn þessa 75 milljarða auk þeirra 8 milljarða sem ríkissjóður þarf á hverju ári eftir það af séreignarsparnaðinum. Með því mætti minnka halla ríkissjóðs verulega og þar með skatttekjur og skattgjöld ríkissjóðs.

Ég get því ekki séð annað en þessi leið leysi þennan vanda. Auðvitað er hún þó bara einu sinni, frú forseti. Það er nákvæmlega eins með þorskinn, hann er veiddur einu sinni. Ef við gerum þetta í eitt eða tvö ár getur það hjálpað þjóðinni til að komast yfir þessa gjá og þau vandræði sem hún stendur frammi fyrir. Eftir tvö, þrjú ár hef ég þá trú að hér muni aftur ríkja bjartsýni, vonandi ekki jafnmikil og árið 2007 en það mikil bjartsýni að við getum byggt upp aftur þjóðfélag sem byggir á ráðdeild og sparsemi. Á því hefur því miður verið skortur á undanförnum áratug.