138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu okkar sjálfstæðismanna um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram í ágætri jómfrúrræðu hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur hér áðan að það er eins og tíminn hafi staðið í stað í sex mánuði. Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu í sumar um margar af þeim aðgerðum sem við ítrekum nú. Því miður hafa þær ekki komist til framkvæmda og ekki einu sinni verið teknir til umræðu nema þennan ágæta dag í þinginu í sumar.

Ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem talað hafa á undan mér og þakka þeim stjórnarliðum sem hafa tekið þátt í umræðunni, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hlýddu á umræðuna í dag og tóku þátt í henni. Hæstv. fjármálaráðherra var reyndar ansi önugur í andsvörum, byrjaði vel en missti gleðina þegar leið á andsvörin, því miður. Ég óttast að hann muni gera minna með þessar tillögur en ræða hans gaf kannski til kynna en við höldum áfram að hamast í honum. Það er ekki nóg að taka þátt í umræðunni til málamynda heldur þarf eitthvað meira að gerast. Það er ekki nóg að tala um samráðið heldur verður samráðið að vera í alvörunni ef það á að þýða eitthvað.

Það sem sló mig í máli hæstv. fjármálaráðherra var setning sem hann sagði þegar við í andsvörum vorum að ræða þann augljósa hugmyndafræðilega ágreining sem er á milli flokks hæstv. fjármálaráðherra og okkar sjálfstæðismanna, það er hugmyndafræði um skattamál. Tillögur okkar sýna mjög vel þann hugmyndafræðilega ágreining sem þarna er á milli miðað við fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram. Hæstv. fjármálaráðherra skildi ekki hvernig tillögur okkar sjálfstæðismanna ættu að ganga upp hvað varðar að við legðum til auknar tekjur í ríkissjóð án þess að hækka skatta. Þá sagði hann að ef við ættum eitthvert val væri þetta mjög fínt. Það sem hæstv. fjármálaráðherra átti við var að við hefðum ekkert val, við yrðum að fara leið skattahækkana og niðurskurðar. Þessu mótmæli ég hástöfum og vísa þessu algjörlega út á hafsauga vegna þess að í þessu tilfelli eins og í flestu öðru í lífinu höfum við yfirleitt alltaf val. Í þessu samhengi trúi ég því innilega að við höfum val. Þessar tillögur sem við leggjum hér fram, þær eru valkostur. Við sýnum fram á það með gildum rökum og mikilli vinnu sem færustu sérfræðingar hafa lagt í þessar tillögur, bæði innan þingflokksins og utan, að við höfum raunhæfa möguleika á að bæta stöðu ríkissjóðs, koma atvinnulífinu í gang og koma okkur hraðar út úr þessari kreppu án þess að fara í þessar ömurlegu skattahækkanir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu.

Reyndar eru skattahækkanirnar í fjárlagafrumvarpinu meira í orði en á borði. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri algjörlega óraunhæft að ætla að við gætum náð þessum tekjum í bættri afkomu ríkissjóðs með þeim hætti sem við leggjum til. Ég fór þá í andsvar við hann og spurði hvort honum þætti þá ekkert óraunhæft að leggja til að tekjuskattar einstaklinga hækkuðu úr 106,7 milljörðum í 143,5 milljarða án þess að það væri nokkuð útfært á tímum þegar tekjur lækka í þjóðfélaginu og atvinnuleysi er að aukast. Hvernig í ósköpunum getur hæstv. fjármálaráðherra haldið því fram að það sé raunhæft að ætla að fá 40 milljarða í kassann í auknar tekjur af tekjusköttum? Jafnvel þótt hann hækkaði skattprósentuna upp í rjáfur fengi hann ekki þessa prósentu vegna þess að við færum öll á hausinn á leiðinni. Hæstv. fjármálaráðherra sneri reyndar út úr þeirri spurningu minni og sagði að þetta væri ekki svo mikil hækkun eins og þarna er lögð til að raungildi. Hann fór í þannig útúrsnúning við mig að hann svaraði náttúrlega ekki spurningunni en það er önnur saga.

Það sem við þurfum núna er ekki gamaldags skattahækkunar-gjaldeyrishaftapólitík sem lagt er til að verði hér áfram heldur þurfum við að sýna djörfung. Það kemur fram í tillögum okkar. Þær eru djarfar. Þær eru með nýja hugsun og við stöndum og segjum: Við erum ekki tilbúin til að fara í gegnum annað tímabil gjaldeyrishafta, haftatímabil eins og við höfum farið í gegnum áður í sögu þessarar þjóðar.

Ég held að það hafi verið þingflokksformaðurinn okkar, Illugi Gunnarsson, sem sagði við mig í samtali þegar við ræddum þessi mál í upphafi: Hvað ætlum við að segja við börnin okkar þegar þau spyrja af hverju við létum viðgangast að hafa gjaldeyrishöft hér í 20 ár. Lærðuð þið ekkert af sögunni? Mér fannst þetta afar góð spurning hjá mínum ágæta félaga, hv. þm. Illuga Gunnarssyni, vegna þess að nákvæmlega þannig eigum við að hugsa. Við hljótum að geta flett til baka í sögubókunum og séð að það eina sem gerist þegar höft eru sett á er að höftin dragast á langinn ef ekki eru teknar djarfar ákvarðanir. Við verðum núna að taka djarfar ákvarðanir og við verðum að sýna kjark. Við verðum að fara í sókn og við verðum að sýna hugrekki til þess að koma von og þrótti til okkar ágætu þjóðar. Það er okkar hlutverk á hinu háa Alþingi að leiða þjóðina út úr þessum vanda.

Það sem við verðum líka að gera, og þess sakna ég hjá hæstv. ríkisstjórn, er að hafa trú á verkefninu. Ég er algjörlega sannfærð um að ef við legðumst á eitt og framkvæmdum þessar tillögur með eldmóð og áræði í farteskinu kæmumst við út úr þessu. Ef við legðumst saman á eitt gætum við komist út úr þessu saman.

Sem þingmaður Suðurkjördæmis leitar hugur minn til Vestmannaeyja. Ég fór á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar. Eyjamenn eru þekktir fyrir einmitt þessa eiginleika sem við þurfum að hafa sem þjóð núna, djörfung, kjark, þor og óbilandi trú á verkefninu. Þegar ég sat í brekkunni og hlustaði á brekkusönginn með tíu, tólf, fjórtán þúsund manns í brekkunni hugsaði ég einmitt þetta: Það er náttúrlega galið að svo margir séu saman komnir hér úti á þessari litlu eyju, allir syngjandi og trallandi, hafa gaman og skemmta sér og allt gengur snurðulaust fyrir sig. Af hverju? Vegna þess að skipuleggjendurnir fara fram af kjarki og dugnaði og fyrst og síðast með óbilandi trú á verkefninu. Það þurfum við að gera hérna núna. Við þurfum að trúa því að við komumst út úr þessu. Við verðum að trúa því að við höfum val.

Þess vegna vil ég hvetja hæstv. fjármálaráðherra, sem því miður er ekki hérna, til þess að gefa þessum tillögum gaum en ekki afskrifa þær bara vegna þess að sjálfstæðismenn setja þær fram. Hæstv. viðskiptaráðherra byrjaði í dag strax að tala um víglínur. Það á ekki að tala um víglínur í þessu efni, við erum öll í þessu sama verkefni. Það sem við þurfum að gera núna er að fá þessa þingsátt sem ég nefndi í stefnuræðunni, þingsátt um að við ætlum koma okkur út úr þessari kreppu. Það gerum við ekki með því að skattleggja okkur út úr vandanum. Við gerum það með því að skapa atvinnu, ryðja úr vegi hindrunum, hætta við þessa ömurlegu fyrningarleið, leyfa fólki að byggja upp í sjávarútvegi og halda því áfram, hætta við þessar ömurlegu fyrirætlanir um orkuskatta og hætta að leggja steina í götu góðra verkefna sem skapa atvinnu um allt samfélagið. Þannig komumst við út úr þessu.