138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar athugasemdir. Ég þarf að taka þetta í öfugri röð. Hv. þingmaður ræddi um landsbyggðina og ég er sammála honum um að þemað í þessu svokallaða sparnaðarfrumvarpi gengur mikið út á að taka stofnanir og slíkt á landsbyggðinni og reyna að kroppa í þær. Það er mjög forvitnilegt að heyra þessa tölu. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að heyra hana nákvæmlega. Ég vissi að hún var töluvert hærri heldur en almennt er talað um en eftir því sem ég kemst næst er 11–12% krafa t.d. á heilsugæslunni á Sauðárkróki, ef það er rétt, nota bene. Það er svo margt í þessu frumvarpi sem er ekki rétt þannig að maður verður að taka því með öllum fyrirvörum sem hægt er að fá.

Varðandi aflaheimildirnar er ég sammála því að við eigum að auka þær. Ef við eigum einhvern tímann að gera það þá er það núna meðan við höfum góða sölu og hátt verð. Hjá okkur framsóknarmönnum voru í gær sérfræðingar í húsnæðismálum sem fóru yfir möguleika varðandi það að lækka höfuðstól og koma heimilum til hjálpar. Þeir lögðu fram ákveðnar tillögur fyrir okkur sem eru mjög samhljóða þeim tillögum sem við höfum áður lagt fram. Við munum taka tillögur þeirra og velta þeim fyrir okkur. Í máli þeirra kom hins vegar fram að það er þeirra mat, og nú vil ég undirstrika að þetta eru sérfræðingar sem þekkja vel til bankakerfisins, að þau lánasöfn sem verið er að færa yfir séu færð yfir á verðmæti 50–60% sem segir okkur að þarna inni er gríðarlega mikið svigrúm til að láta afskriftir ganga til heimilanna. Það er að mínu viti óskiljanlegt af hverju ríkisstjórnin beitir sér ekki fyrir því að það sé gert. Með því að gera það ekki er verið að vernda kröfuhafana og lánardrottnana, (Forseti hringir.) enga aðra.