138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

lausn Icesave-deilunnar.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar menn vísa til þess að þeir áskilji sér rétt til að njóta góðs af úrskurði um hinn lagalega ágreining þá eru menn að gera allt annan hlut. Ég held að betur hefði farið á því að við hefðum sagt greinilega í þessum samningi: Við erum að gera þetta í þeirri trú að okkur sé þetta skylt vegna þess að þegar við segjum beinlínis að við teljum að okkur sé ekki skylt að veita ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga en gerum það samt þá eigum við enga undankomuleið þegar skorið er úr um þennan ágreining. En eftir situr auðvitað grundvallarspurningin: Hvers vegna samþykkti hæstv. fjármálaráðherra í sumar að þegar úr þessu yrði skorið ætti þingið að hafa þann rétt að takmarka ríkisábyrgðina? Hvers vegna voru allir stjórnarliðar þeirrar skoðunar í sumar en sætta sig núna við að falli dómur og verði úr þessu leyst síðar þá njóti Alþingi einskis réttar til að takmarka ábyrgðina, við þurfum engu að síður að standa við okkar skuldbindingar? Það eina sem viðsemjendur okkar eru tilbúnir að fallast á er að hefja viðræður. (Forseti hringir.) Viðurkenning þeirra á því að við teljum okkur þetta ekki (Forseti hringir.) skylt er einskis virði ef það á ekki að hafa aðrar afleiðingar en þær að aðilar setjist niður (Forseti hringir.) og ræði málið.