138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

málefni Götusmiðjunnar.

[15:19]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki eru sérgreind í fjárlagafrumvarpi framlög til einstakra úrræða á borð við það sem hún nefnir í fyrirspurn sinni, Götusmiðjuna. Framlög til Götusmiðjunnar sem og annarra meðferðarúrræða og ýmissa annarra úrræða eru byggð á þjónustusamningum og framlögum af þeim. Ég hef ekki handbærar áætlanir okkar fyrir næsta ár en við höfum reynt að verja sem kostur er þessa liði ef við höfum svigrúm til að halda áfram þjónustu af þeim toga sem hér er gerð að umtalsefni. Við höfum reynt að láta sparnaðinn koma niður annars staðar. Hvað varðar þetta tiltekna verkefni ætla ég ekki að lofa upp í ermina á mér, en ég mun taka það til gaumgæfilegrar athugunar. Við eigum eftir að ganga frá framlengingu á ýmsum samningum sem ýmist eru að renna út eða þurfa að koma til endurnýjunar núna fyrir næsta ár.