138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

málefni Götusmiðjunnar.

[15:21]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi góðu orð og er alveg sammála hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að við verjum möguleika okkar til að grípa til úrræða á þessum erfiðu tímum. Því er ekki að leyna að við höfum svolítið togast á um það hvernig eigi að skilgreina úrræði einmitt eins og þessi og fjárveitingar til Barnaverndarstofu sem síðan kaupir þjónustu af ýmsum aðilum. Mér finnst mjög mikilvægt að við skilgreinum öll velferðarverkefni sem grunnþjónustu sem eigi að taka 5% aðhaldskröfu, en horfum ekki til stjórnsýsluhlutverks viðkomandi stofnana fyrst og fremst. Við verðum að skilgreina þjónustuna sjálfa sem grunnþjónustu og að hún eigi að sæta 5% aðhaldskröfu en ekki að vegna þess að fjárveitingarnar eru til stofnunar sem síðan kaupir þjónustu af öðrum eigi aðhaldskrafan að vera 10%. Það er mjög mikilvægt að verja barnaverndarmál á þessum erfiðu tímum. Það segir reynsla nágrannaþjóðanna okkur.