138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

greiðslubyrði af Icesave.

[15:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hafa efnahagslegir fyrirvarar sem Alþingi setti í lög um ríkisábyrgð í sumar verið felldir úr gildi. Í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem samþykktir voru í ágúst var sett hámark á greiðslur Íslendinga til Breta og Hollendinga, hámark sem nam 6% af hagvexti eftir að greiðslur hæfust. Þetta var gert í anda hinna sameiginlegu viðmiða, Brussel-viðmiða. Þessu hefur nú verið breytt þannig að nú borga Íslendingar aldrei meira en 6% af höfuðstól á ári — en alltaf áfallna vexti. Þetta þýðir að ef t.d. skuldin 2016 verður 350 milljarðar og hagvöxtur enginn verður ekkert greitt af höfuðstól en vextir eru alltaf greiddir. Höfuðstóllinn verður óbreyttur.

Segjum sem svo að ekki verði hagvöxtur á þessu tímabili og þá verða vaxtagreiðslur áranna 2016–2024 um 120 milljarðar en höfuðstóllinn verður sá sami. Hann liggur enn í 350 milljörðum árið 2024. Með þeirri breytingu sem ríkisstjórnin leggur til hefur þessi efnahagslegi fyrirvari enga þýðingu lengur. Í versta falli kann þessi varnagli að vinna gagn hagsmunum þjóðarinnar.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur verið lagt mat á væntanlega greiðslubyrði miðað við mismunandi hagvaxtarforsendur, miðað við þessar breytingar, og ef svo er, gæti hæstv. fjármálaráðherra þá upplýst Alþingi um útkomur úr þeim útreikningum?