138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

greiðslubyrði af Icesave.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það gildir svipað um þessa spurningu og fyrri spurningar formanns Sjálfstæðisflokksins, ef hv. þingmenn hefðu biðlund í kannski eins og sólarhring gefst vonandi tækifæri á að ræða þetta undir dagskrárlið um málið sjálft.

Staðan er sú að á efnahagslegu fyrirvarana er fallist og þeir eru felldir inn í samþykktar- og viðaukasamning nákvæmlega eins og þeir voru útfærðir af Alþingi þannig að miðað er við 4% af uppsöfnuðum hagvexti í tilviki Bretlands og 2% af uppsöfnuðum hagvexti frá 2008–2016 í tilviki Hollands. Með batnandi horfum á endurheimtum til búsins eru hverfandi líkur á öðru en að þessi uppsafnaði hagvöxtur nægi fyrir vöxtum á hverjum tíma og væntanlega gott betur. Sömuleiðis eru mjög minnkandi líkur á því að nokkrar eftirstöðvar verði af láninu árið 2024.

Að sjálfsögðu geta þeir þingmenn sem það kjósa dregið upp kolsvarta mynd af því að hér verði enginn hagvöxtur og bara miklir erfiðleikar á komandi árum og áratugum. Þá verður að takast á við það ef þeir skyldu reynast sannspáir, ég ætla nú ekki að segja verða að ósk sinni, að sjálfsögðu ekki, en færi svo illa mundi ýmislegt annað kalla á aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda. Veruleikinn er sá að greiðslurnar eru varðar að þessu leyti, þó með því gólfi að vextir séu jafnan borgaðir enda fá dæmi um lánasamninga þar sem það á ekki við. Seðlabankinn hefur haft gögn undir höndum frá því að sá til lands í þessum viðræðum til að endurmeta þetta í ljósi nýrra ákvæða og m.a. núvirt skuldbindingarnar eins og líklegt sé að þær standi miðað við nýjustu upplýsingar um endurheimtur úr búinu. Þá er talið að núvirt gæti upphæðin verið um 174 milljarðar kr. þegar kemur að greiðslum árið 2016. Miðað við líklegar horfur um vöxt landsframleiðslu á þeim tíma og í ljósi þess að hér er um að ræða óverðtryggt lán á föstum vöxtum held ég að hv. þingmaður hafi meira en nóg af fræðiþekkingu til að vita (Forseti hringir.) að það horfir þá til þess að greiðslur verði mun léttari og mun lægra hlutfall af þjóðartekjum á þeim tíma (Forseti hringir.) en margir óttuðust upphaflega.