138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

greiðslubyrði af Icesave.

[15:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að Seðlabanki Íslands hefur metið núvirta skuldabyrði í byrjun árs 2016 upp á eina 170 milljarða. Ég get reyndar gert betur, ég get notað ávöxtunarkröfu upp á 20% og þá verða þetta ekki nema kannski 20 milljarðar, eitthvað svoleiðis. Ég gæti gert enn betur og notað 100% ávöxtunarkröfu. Þá verður ekki neitt eftir og engin vandamál.

Þetta er blekkingaleikur. Þetta er algjör blekkingaleikur. Ef það verður ekki hagvöxtur hérna er stór hætta á því að við stefnum þjóðarbúinu í greiðsluþrot, alveg sama hvaða leikir eru leiknir. Við megum ekki taka neina áhættu með það, við Íslendingar erum búnir að sýna hversu klárir við erum í að taka svona sénsa og meta þessa áhættu. Ef fjármálaráðuneytið ætlar að leika þennan leik, að taka þessa áhættu (Forseti hringir.) sem gæti kallað yfir okkur stórkostlega greiðslubyrði í framtíðinni, þá það. Þá ber hæstv. fjármálaráðherra ábyrgð á því. Það segi ég með mína fræðiþekkingu eins og það var orðað.